7-8 ára sprengdu sig í loft upp

Sjúkrabíll við markaðinn í dag þar sem stúlkurnar sprengdu sig …
Sjúkrabíll við markaðinn í dag þar sem stúlkurnar sprengdu sig í loft upp. AFP

Tvær ungar stúlkur, sjö eða átta ára, sprengdu sjálfar sig í loft upp á markaði í norðausturhluta Nígeríu í dag. Þær létust báðar. Einn til viðbótar féll í sprengingunni og átján særðust. 

Hryðjuverkasamtökin Boko Haram, sem eru skæð á þessu svæði, hafa enn ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér en þau þykja þó líkleg til að bera hana, að sögn talsmanns hersins. Boko Haram notar oft konur og stúlkur í sjálfsmorðsárásum sínum. 

„Þær stigu út úr vagninum og gengu rétt fyrir framan mig án þess að sýna nokkrar tilfinningar,“ segir hermaðurinn Abdulkarim Jabo. „Ég reyndi að tala við aðra þeirra en hún svaraði mér ekki. Ég hélt að þær væru að leita að móður sinni. Hún gekk að kjúklingasölumönnunum og kveikti svo í sprengjubeltinu.“

Vígamenn Boko Haram hafa gert óteljandi árásir í Nígeríu síðan þeir gripu til vopna í átökum sínum við ríkisstjórn landsins árið 2009.

Að minnsta kosti 20 þúsund manns hafa fallið og rúmlega tvær milljónir manna hafa flúið heimili sín.

Mannréttindasamtök halda því fram að hryðjuverkasamtökin hafi rænt þúsundum kvenna og stúlkna. Í þekktasta mannráninu, sem framið var árið 2014, rændu þeir meira en 200 skólastúlkum.

Vígamennirnir hafa notað konurnar í kynlífsþrælkun og einnig til að sprengja sig í loft upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka