Meira fylgi eftir sakfellinguna

Geert Wilders, leiðtogi hollenska Frelsisflokksins.
Geert Wilders, leiðtogi hollenska Frelsisflokksins. AFP

Fylgi Frelsisflokksins í Hollandi hefur aukist mjög síðan leiðtogi hans, Geert Wilders, var sakfelldur fyrir þjóðernismismunun nýverið ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar. sem birtar voru í dag. Könnunun var gerð af Maurice de Hond-stofnuninni.

Fram kemur í frétt AFP að ef kosið yrði í dag fengi flokkur Wilders 35 þingsæti af 150 í neðri deild hollenska þingsins og væri stærsti flokkur Hollands. Áður en réttarhöldin yfir Wilders hófust 31. október var Frelsisflokkurinn með fylgi sem dygði fyrir 27 þingsætum. Flokkurinn, sem leggur áherslu á harða innflytjendastefnu, hefur eins og staðan er í dag 12 þingsæti.

Wildes var sem fyrr segir sakfelldur fyrir þjóðernismismunun en sýknaður af ákæru um hatursáróður vegna ummæla sem hann lét falla um Marokkóbúa í framboðsræðu sem hann hélt í mars 2014.

Flokkur Marks Rutte, forsætisráðherra Hollands, mælist með næstmest fylgi og fengi 23 þingsæti ef kosið væri í dag en flokkurinn er með 40 þingsæti. Samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, Verkamannaflokkurinn, fengi 10 þingsæti miðað við 35 eins og staðan er í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka