Neyðarlögin gilda fram yfir kosningar

Bernard Cazeneuve, forsætisráðherra Frakklands, í franska þinginu í gærkvöldi.
Bernard Cazeneuve, forsætisráðherra Frakklands, í franska þinginu í gærkvöldi. AFP

Neðri deild franska þingsins samþykkti í nótt að framlengja neyðarlögin til 15. júlí eða fram yfir forsetakosningar. Neyðarlög hafa gilt í landinu frá því hryðjuverkaárásir voru framdar í París í nóvember í fyrra. 130 manns létust í árásunum. Fastlega er gert ráð fyrir því að efri deild þingsins samþykki lögin á morgun. Þetta er í fimmta skiptið sem gildistími neyðarlaganna er framlengdur. Með lögunum fær lögregla meðal annars auknar heimildir til þess að leita á heimilum fólks og handtaka. 

Alls greiddu 288 atkvæði með lögunum en 32 voru á móti. Neyðarlög hafa ekki gilt jafnlengi í Frakklandi og nú síðan á tímum Alsírsstríðsins á sjöunda áratugnum. Ljóst er að lögin munu gilda fram yfir forsetakosningar í apríl og maí og þingkosningar í júní. Varað hefur verið við aukinni hættu á hryðjuverkaárásum í tengslum við kosningarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert