Leifar af sprengiefni fundust á farþegum EgyptAir þotunnar sem hrapaði á leið frá París til Kairó 19. maí síðastliðinn. Allir 66 farþegar vélarinnar létu lífið.
Egypsk flugmálayfirvöld sendu frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að formleg glæparannsókn á hrapi Airbus 320 þotunnar hefjist þegar í stað.
Hingað til hefur ekki komið í ljós hvað olli því að þotan hrapaði.
Engin neyðarskilaboð bárust frá þotunni en upptökur úr flugstjórnarklefanum sýna fram á að flugstjórarnir hafi barist við að slökkva eld.
Sjálfvirkt viðvörunarkerfi gaf til kynna að reykur hafi verið í nefi þotunnar og að eitthvað hafi verið að stjórnunarkerfi hennar.
Skilaboðin úr kerfinu gáfu til kynna að reykur hafi verið í framhluta vélarinnar, sérstaklega í salerni og vélarrými fyrir neðan flugstjórnarklefann. Reykskynjarar þar hafi farið í gang aðeins nokkrum mínútum áður en þotan hvarf af ratsjá.
Þrátt fyrir að óttast hefði verið að um hryðjuverk hefði verið að ræða hafa engir hryðjuverkahópar líst yfir ábyrgð á verknaðinum.