Sekur - dauðarefsingar krafist

Dylann Roof.
Dylann Roof. AFP

Dylann Roof hefur verið fundinn sekur um að hafa skotið til bana níu svört sóknarbörn í kirkju í Charleston í fyrra. Verður hann mögulega dæmdur til dauða. Það tók kviðdóminn aðeins tvær klukkustundir að komast að niðurstöðu í málinu.

Roof, 22 ára, bar ekki vitni við réttarhöldin en kviðdómendum voru sýndar upptökur af viðtölum lögreglu við unga manninn þar sem hann sagðist hafa myrt fólkið til þess að hefna fyrir meinta glæpi svartra gegn hvítum.

David Bruck, verjandi Roof, gaf í skyn að hann þjáðist af andlegum veikindum og sagði hann hvorki hafa alist upp á rasísku heimili né hafa átt í samskiptum við aðra hvíta þjóðernissinna.

Hinar rasísku hugmyndir „fóru beint af internetinu og inn í heila hans... Allt sem hann gerir er eftirherma,“ sagði Bruck.

Roof heimsótti kirkjuna nokkrum sinnum áður en hann lét til skarar skríða og sagði lögreglumönnum hlæjandi frá því að hann hefði ekki valið aðra kirkju þar sem það gæti verið hvítt fólk þar.

Hinn dæmdi sagðist hafa fengið innblástur við að lesa um drápið á Trayvon Martin.

„Eftir að ég las um það pikkaði ég inn, af einhverri ástæðu, glæpir svartra gegn hvítum,“ sagði Roof. „Ég varð að gera þetta, af því að einhver þurfti að gera eitthvað því svartir eru að drepa hvíta á hverjum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka