Kínverski sjóherinn hefur lagt hald á bandarískan neðansjávardróna í Suður-Kínahafi. Bandarískir sjóliðar urðu vitni að atvikinu, sem átti sér stað á alþjóðlegu hafsvæði.
Að sögn heimildarmanns innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins var dróninn að koma upp á yfirborðið og í þann mund að vera sóttur af USNS Bowditch, bandarísku rannsóknar- og eftirlitsskipi, þegar kínverskt herskip sem hafði verið að fylgjast með Bowditch settu lítinn bát á flot.
Báturinn sigldi að drónanum og kínverskir sjóliðar tóku hann um borð, þrátt fyrir mótmæli Bandaríkjamanna. Sögðu þeir drónann bandaríska eign á alþjóðlegu hafsvæði. Bandarísku og kínversku skipin voru þá stödd um 100 mílur norðvestur af Subic Bay á Filippseyjum.
Bandarísk yfirvöld hafa heimtað að drónanum verði skilað.
Að sögn Peter Cook, blaðafulltrúa Pentagon, staðfesti kínverska herskipið að það hefði móttekið mótmæli bandaríska skipsins en svaraði þeim ekki.
Sérfræðingar segja mögulegt að um sé að ræða viðbrögð Kína við ákvörðunum Donald Trump, nýkjörins forseta Bandaríkjanna, sem rauf 37 ára hefð þegar hann tók símtal frá forseta Taívan og setti spurningamerki við „eitt Kína“ afstöðu Washington, sem viðurkennir ekki Taívan sem sjálfstætt ríki.
Atvikið þykir þó einnig endurspegla þá hljóðlátu baráttu sem á sér stað neðansjávar í Suður-Kínahafi, þar sem Bandaríkjamenn hafa komið á fót eftirliti með kínverskum kafbátum.