Segja Bandaríkin gera mikið úr atvikinu

Hafrannsóknaskipið USNS Bowditch sem ætlaði að ná í drónann þegar …
Hafrannsóknaskipið USNS Bowditch sem ætlaði að ná í drónann þegar Kínverjar gripu hann. AFP

Kínversk stjórnvöld saka bandarísk um að gera of mikið úr því að kínverskir sjóliðar hafi lagt hald á neðansjávardróna í Suður-Kínahafi í gær. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur krafist þess að Kínverjar skili drónanum og Donald Trump sakaði þá um „þjófnað“ á Twitter.

Bandarísk stjórnvöld segja að dróninn hafi verið að gera vísindaathuganir á alþjóðlegu hafsvæði í Suður-Kínahafi þegar sjóliðar á kínversku herskipi veiddu hann upp úr sjónum. Varnarmálaráðuneytið varaði Kínverja við því að endurtaka þetta. Atvikið er sagt einn alvarlegasti hernaðarlegi ágreiningur ríkjanna í áratugi.

Frétt Mbl.is: Lögðu hald á bandarískan dróna

Í yfirlýsingu í dag sögðust kínversk stjórnvöld eiga í viðræðum um að skila drónanum. Í annarri yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Kína gagnrýndi það bandarísk stjórnvöld fyrir að bregðast of hart við atvikinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Ástandið í Suður-Kínahafi hefur verið viðkvæmt að undanförnu en Kínverjar gera tilkall til hluta hafsvæðisins þar. Ekki er ljóst hvort að dróninn hafi verið á svæði sem kínversk stjórnvöld telja sig ráða. Bandarísk stjórnvöld hafa haft áhyggjur af hernaðaruppbyggingu Kínverja á svæðinu.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, óð á Twitter eins og hann hefur ítrekað gert til að skamma Kínverja fyrir að hafa lagt hald á drónann.

„Kína stelur rannsóknadróna bandaríska sjóhersins á alþjóðlegu hafsvæði, rífur hann úr sjónum og fer með hann til Kína í fordæmalausum verknaði,“ skrifaði Trump sem hefur áður reitt kínversk stjórnvöld til reiði með því að ræða við forseta Taívan í síma.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert