Bill Gates tilkynnti á mánudaginn um nýjan fjárfestingasjóð fyrir orkurannsóknir. Að sögn Gates mun sjóðurinn leggja áherslu á fjárfestingar í orkurannsóknum og þróun á leiðum til að draga úr loftlagsbreytingum. Ætlunin er að sjóðurinn geti í samstarfi við Kaliforníuháskóla og fleiri stofnanir hagnast á ríkisfjármögnuðum rannsóknum innan orkumála.
Í umfjöllun The New York Times er fjallað um nýja sjóðinn í samhengi við afstöðu Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, til loftlagsbreytinga en Trump hefur lýst yfir efasemdum um loftlagsbreytingar og meðal annars skipað talsmann fyrir jarðefnaeldsneyti sem yfirmann umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA).
Gates býst þó við því að Trump muni átta sig á mikilvægi ríkisfjármagnaðar rannsóknir sem muni með tímanum leiða til góðs fyrir viðskiptalífið, atvinnutækifæri, innviði og aðra efnahagslega þætti sem forsetaefnið talaði fyrir í kosningabaráttunni.
Fjárfestingasjóðurinn ber heitið Breakthrough Energy Ventures en að honum standa 20 fjárfestar. Þar má helst nefna Bill Gates, Jack Ma, stofnanda Alibaba og áhættufjárfestina John Doerr og Vinod Khosla. Sjóðurinn mun hafa um 15-20 ára líftíma og að sögn Gates mun einvala lið vísindamanna koma að bæði ákvarðanatöku sjóðsins og vinnu verkefnanna sem hljóta fjármögnun.
Bill Gates og Donald Trump funduðu í Trump-turninum í New York í síðustu viku, eftir að Gates tilkynnti um sjóðinn. Eftir fundinn sagði Gates að umræðuefnið hefði verið nýsköpun og líkti forsetaefninu við John F. Kennedy, fyrrum forseta Bandaríkjanna sem talaði opinberlega um mikilvægi tækni og vísinda.
Samkvæmt frétt Independent sagði Gates að Trump tæki nýsköpun fagnandi, líkt og Kennedy gerði. „Á sama hátt og Kennedy fékk þjóðina með sér þegar hann talaði um geimförina held ég að hvort sem það er menntun eða útrýming farsótta eða orkumál, þá gætu komið hressandi skilaboð frá ríkisstjórn Trumps um að hún ætli að skipuleggja hlutina upp á nýtt, losa sig við reglugerðir sem eru fyrir og standa fyrir bandaríska forystu í gegnum nýsköpun.“
Í frétt Independent kemur þó fram að Trump hafi verið gagnrýndur fyrir að hafna ýmsum vísindalegum sönnunum fyrir loftlagsbreytingum og fleiru.