Einn handtekinn eftir árás á jólamarkað

Einn hefur verið handtekin eftir að vörubíl var ekið inn í mannmergð á jólamarkaði í miðborg Berlínar nú í kvöld með þeim afleiðingum að níu manns hið minnsta létu lífið og um 50 slösuðust.

Fréttavefur Guardian hefur eftir Reuters að aðstoðarmaður ökumannsins hafi látist á vettvangi.

Björgunarsveitir við vörubílinn sem ekið var á jólamarkaðinn.
Björgunarsveitir við vörubílinn sem ekið var á jólamarkaðinn. AFP

Fréttavefur BBC hafði eftir þýsku lögreglunni að víst megi telja að bílnum hafi verið ekið vísvitandi inn á markaðinn, en myndbandsupptökur frá vettvangi sýna hvernig bíllinn keyrði niður nokkra markaðsbása og hvar slasað fólk liggur á jörðinni.

Ekkert hefur enn verið gefið upp um ökumanninn, en númeraplöturnar á vörubílnum eru pólskar og bílinn var í eigu pólsks flutningafyrirtækis að því er segir á fréttavef Guardian.

Flutningafyrirtækið segir bílinn hafa farið frá Póllandi eftir hádegi í dag, en að fyrirtækið hafi misst öll tengsl við ökumanninn um fjögur síðdegis. 

„Svo virðist sem vörubílnum kunni að hafa verið rænt,“ segir í frétt Guardian.

Wolfgang Bosbach, þingmaður Kristilegra demókrata, sagði við fjölmiðla í kvöld: „Þó að fjölda spurninga sé enn ósvarað bendir flest til að þetta hafi verið vísvitandi árás sem var framkvæmd ekki bara af mikilli grimmd og með hörmulegum afleiðingum heldur að hún eigi líka að vera táknræn.

Aðeins nokkrum dögum fyrir jól í miðri höfuðborg Þýskalands innan um ánægt og friðsælt fólk. Skilaboðin eru skýr: Það skiptir ekki máli hvar, eða hvernig – við getum gert árás hvenær sem er,“ sagði Bosbach.

Yfirvöld í Þýskalandi hafa að sögn CNN haft áhyggjur af skorti á öryggi á jólamörkuðum í landinu, en markaðirnir eru vinsæll viðkomustaður Þjóðverja í jólagjafahugleiðingum, sem og fjölmargra ferðamanna.

Sjúkraflutningamenn flytja slasaða af vettvangi.
Sjúkraflutningamenn flytja slasaða af vettvangi. AFP

 

Frétt mbl.is: Keyrði á mannfjölda á jólamarkaði

Blaðamaður frá Berliner Morgenpost segir ástandið á vettvangi vera „hryllilegt“. „Ég heyrði mikil læti og svo gekk ég að jólamarkaðnum og sá ringlulreið og marga særða,“ sagði Jan Hollitzer, aðstoðarritstjóri Berliner Morgenpost, við CNN sem hefur eftir ferðamanni sem var á markaðnum að bíllinn hafi virst nálgast hann á um 60 km hraða.

Lögreglan í Berlín hefur þá að sögn AFP-fréttastofunnar hvatt borgarbúa til að halda sig heima við í kvöld.

Facebook er búið að virkja möguleikann fyrir notendur sem eru í Berlín að láta vita að þeir séu heilir á húfi.

Slökkviliðsmenn og rannsakendur standa fyrir framan vörubílinn sem ekið var …
Slökkviliðsmenn og rannsakendur standa fyrir framan vörubílinn sem ekið var á jólamarkaðinn. AFP

Ekki heyrt um neina Íslendinga á staðnum

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is að engar upplýsingar hafi borist sem bendi til að Íslendingar hafi lent í árásinni. Hún segir að lögð sé áhersla á að Íslendingar í Berlín láti ættingja vita af sér og noti upplýsingamöguleika í Facebook sem láti vita hvort notendur séu í lagi. Þá segir hún að lögreglan hafi beðið fólk um að halda sig innandyra og hún taki undir það.

Urður segir að íslensk yfirvöld hafi verið í sambandi við yfirvöld í Þýskalandi. Þannig hafi bæði sendiráð og ráðuneyti sett sig í samband við yfirvöld í Berlín til að fá vitneskju um ef einhverjir íslenskir ríkisborgarar hafi lent í árásinni.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert