Níu manns létust hið minnsta og um 50 slösuðst þegar vörubíl var ekið inn í mannmergðina á jólamarkaði í miðborg Berlínar nú í kvöld.
„Að minnsta kosti 50 eru særðir [...] sumir alvarlega. Nokkir eru látnir,“ hefur AFP eftir talsmanni lögreglu. Í Twitter-færslu sem þýska lögreglan sendi frá sér fyrir skemmstu kemur fram að a.m.k. níu manns hafi farist.
Fréttavefur BBC hefur eftir þýsku lögreglunni að víst megi telja að bílnum hafi verið ekið vísvitandi inn á markaðinn, en myndbandsupptökur frá vettvangi sýna hvernig bíllinn keyrði niður nokkra markaðsbása og hvar slasað fólk liggur á jörðinni.
Blaðamaður frá Berliner Morgenpost segir ástandið á vettvangi vera „hryllilegt“. „Ég heyrði mikil læti og svo gekk ég að jólamarkaðnum og sá ringlulreið og marga særða," sagði Jan Hollitzer, aðstoðarritstjóri Berliner Morgenpost við CNN, sem hefur eftir ferðamanni sem var á markaðnum að bíllinn hafi virst nálgast hann á um 60 km hraða.
Þýskir fjölmiðlar segja ökumanninn nú vera á flótta, en að sögn Berliner Zeitung hefur lögregla komið upp móttökustöðvum í nágrenni markaðarins fyrir ættingja þeirra sem voru á vettvangi.
Jólamarkaðurinn er við Breitscheidplatz, sem er rétt við innganginn að dýragarðinum suðvestur af Tiergarten-garðinum.