Leitað á röngum stað

AFP

Talið er nánast fullvíst að malasíska þotan, flug MH370, sé ekki á því svæði á Indlandshafi sem leitað er nú á. Er jafnvel talið að flakið sé norðar, segir í nýrri rannsókn sem birt var í dag. Yfirvöld taka hins vegar fram að óvíst sé að leitarsvæðið verði stækkað.

Engar leifar hafa fundist við gríðarlega viðamikla leit neðansjávar fyrir utan Ástralíu undanfarin ár. Flugvélin, sem var í eigu Malaysia Airlines, hvarf af ratsjám 8. mars 2014 með 239 um borð. 

Aftur á móti er talið að yfir 20 brot sem hafa fundist, flest í vesturhluta Indlandshafs, séu brak úr þotunni sem var á leið frá Kuala Lumpur til Peking. 

Ástralskir og alþjóðlegir sérfræðingar, frá Boeing og Inmarsat meðal annars, sendu frá sér skýrslu í dag  þar sem þeir telja ólíklegt að flak vélarinnar sé að finna á því 120 þúsund ferkílómetra svæði sem leitað hefur verið á. Þeir fara nú yfir frekari gögn varðandi hvort leit verði haldið áfram eða henni hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert