Lögreglan í Austurríki ætlar að dreifa sex þúsund vasa-viðvörunartækjum á gamlárskvöld í von um að koma í veg fyrir kynferðisárásir eins og gerðar voru í nágrannalandinu Þýskalandi fyrir ári síðan.
„Þetta er þjóðarherferð sem er beint til kvenna á gamlárskvöld,“ sagði talsmaður austurríska innanríkisráðuneytisins.
Viðvörunartækin, sem eru ókeypis, senda frá sér hávært hljóð sem á að hrekja í burtu mögulega kynferðisbrotamenn.
Innanríkisráðuneytið ætlar einnig að efla öryggisgæslu á fjölmennum viðburðum í ljósi árásarinnar sem var gerð á jólamarkað í Berlín í gærkvöldi.
Reiknað er með því að nokkur hundruð þúsund gestir taki þátt í nýársfögnuði í miðborg Vínar.
Á gamlárskvöld í fyrra voru hundruð kvenna rændar og þær áreittar kynferðislega af hópi manna, flestum af arabískum og norður-afrískum uppruna í þýsku borginni Köln.
Frétt mbl.is: 516 árásir tilkynntar í Köln