Breskur vörubílsstjóri hefur safnað tæpum sjö milljónum króna í gegnum söfnunarsíðu á netinu fyrir fjölskyldu pólska vörubílsstjórans sem fannst látinn í bílnum sem notaður var í árásinni á jólamarkað í Berlín.
Frétt mbl.is: Einn handtekinn eftir árás á jólamarkað
David Duncan sagði á vefsíðunni GoFundMe, þar sem hann hóf söfnunina á þriðjudag, að fregnirnar af Lukasz Urban, sem var 37 ára, hafi haft mikil áhrif á hann.
„Þótt ég hafi ekki þekkt Lukasz komst ég í mikið uppnám vegna fregnanna af ótímabæru andláti hans og ég fylltist viðbjóði. Sem vörubílstjóri ákvað ég að leita til þeirra sem eru í samfélagi vörubílstjóra og víðar í von um smávægilega hjálp,“ sagði hann.
Samkvæmt vefsíðunni hafa 3.400 manns tekið þátt í söfnuninni.
Tólf manns fórust þegar vörubílnum var ekið í þvögu fólks á jólamarkaðnum á mánudaginn.
Urban, sem starfaði hjá fyrirtæki frænda síns, Ariel Zurawski í norðurhluta Póllands, fannst látinn í farþegasæti vörubílsins eftir að hafa verið skotinn.
Zurawski lýsir honum sem „góðum náunga“ og sagði að líkami hans hafi borið merki um að hann hafi lent í átökum við árásarmanninn eða –mennina, þar á meðal stungusár.
„Ein manneskja hefði ekki getað yfirbugað hann,“ sagði hann um Urban.
Þýska lögreglan leitar að hælisleitanda frá Túnis sem er grunaður um árásina.