Undirbjuggu hryðjuverk í Þýskalandi

AFP

Þýska lögreglan handtók tvo bræður, sem eru ættaðir frá Kosovo, í gærkvöldi en þeir eru grunaðir um að hafa skipulagt hryðjuverkaárás í einni af stærstu verslunarmiðstöðvum landsins.

Lögreglan rannsakar nú hversu langt bræðurnir, sem eru 28 ára og 31 árs, voru komnir við skipulagningu árásarinnar og hvort fleiri hafi verið í vitorði með þeim. 

Leyniþjónusta Þýskalands hafði samband við lögreglu sem lét til skarar skríða seint í gærkvöldi en leitað var í verslunarmiðstöðinni í Oberhausen og á nærliggjandi jólamarkaði. Verslunarmiðstöðin, CentrO, er ein stærsta verslunarmiðstöðin í Þýskalandi en þar eru um 250 verslanir. Rétt fyrir jól er hún yfirleitt troðfull af fólki sem er að kaupa jólagjafir og undirbúa hátíðina

Á mánudagskvöldið var gerð árás á jólamarkaði í Berlín sem kostaði 12 lífið og fleiri tugir særðust, þar af 14 mjög alvarlega. Lögreglan leitaði á þremur heimilum og á fleiri stöðum í gær en leit stendur yfir af Anis Amri, 24 ára Túnisa, sem er grunaður um að hafa framið hryðjuverkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert