„Það er ástand í eyjunum. Það er útgöngubann sem nær til allra eyjanna. Veðrið er alveg snælduvitlaust. Það fýkur allt sem hægt er að fjúka,“ segir Ómar Sigurbergsson sem býr í Þórshöfn í Færeyjum. Þar er stormur og hefur veðrið verið mjög slæmt síðustu daga.
Lögreglan hefur lokað Kaldbaksvegnum og er ástæðan sú að íbúðarhús hrundi og fýkur allt lauslegt. Rafmagnslaust er í Þórshöfn og verður að minnsta kosti fram á morgundag. Kringvarpið, ríkisútvarp Færeyja greinir frá þessu.
Vindhraðinn hefur farið mest upp í 67 m/s og verið á bilinu 35-65 m/s. Spáð er allt að 30 m/s þar í kvöld og nótt samkvæmt vefsíðunni Belgingi.
Bálhvasst var í eyjunum í morgun og farið er að hvessa aftur á nýjan leik núna. Flökt hefur verið á rafmagninu í allan dag og fór rafmagnið af þegar mbl.is sló á þráðinn til Ómars. „Í húsinu er rafmagnskynding og verðum við því að ylja okkur við kertaljós,“ segir Ómar. Hann var fljótur að benda á að sem betur fer hafi ekki verið rafmagnslaust á aðfangadag og því gátu flestir eldað jólamatinn. Rafmagnið fór af víða á eyjunum á Þorláksmessu.
Nokkurt eignartjón hefur orðið í storminum á eyjunum. Betur fór en á horfðist þegar grjót rigndi yfir bíl sem var á ferð á aðfangadag, segir í frétt Ríkisútvarps Færeyja.
Virkilega slæmt veður var aðfaranótt Þorláksmessu og sagðist Ómar hafa sofið lítið þá nótt. Hann segir að sumir Færeyingar hafi bent á að þeir hafi aldrei upplifað jafn slæmt veður og undanfarið. Flug hefur legið niðri á eyjunum og ekki var siglt til Suðureyja rétt fyrir jól. Ómar telur nokkuð líklegt er að þeir sem hafi ætlað sér að komast heim til Suðureyja fyrir jól hafi ekki náð því. „Kannski var siglt í dag þegar dúraði á milli ég veit það ekki,“ segir Ómar.
Ómar hefur búið í Færeyjum síðustu fjögur ár með konu sinni Sif Gunnarsdóttir. Hann segir dásamlegt að búa í Færeyjum. Þar sé rólegt og fólkið mjög vinalegt. „Hér er allt gott nema veðrið,“ segir hann og hlær. Inntur eftir því hvort hann sé ekki orðinn góður í færeysku segist hann ekki geta viðurkennt það. „Ég er flinkur í mörgu öðru. Ég vinn mikið einn og þyrfti að tala meira við Færeyinga en þeir eru svo góðir í dönsku svo það sleppur,” segir hann.