„Börnin eru að fara í fyrsta skipti út úr húsi í dag í þrjá daga,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, sem staddur er í Þórshöfn í Færeyjum. Þar dvelur Baldur yfir jól og áramót ásamt fjölskyldu sinni. Veðrið er gengið niður að mestu en aftakaveður hefur verið á eyjunum síðan á Þorláksmessu.
Það var ekki þrautalaust fyrir fjölskylduna að komast til Færeyja en ferðin, sem venjulega tekur um klukkustund, tók fimm klukkustundir vegna veðurs. „Það var mjög hvasst á föstudaginn og ekki hægt að lenda hérna fyrst. Við flugum frá Keflavík en þegar hingað var komið hringsóluðum við yfir eyjunum í um klukkustund. Þá þurfti að fljúga til Bergen til að sækja meira eldsneyti á vélina. Síðan var flogið til baka og þá var hægt að lenda strax,“ segir Baldur.
Á aðfangadag tók veðrið síðan að versna og mældust vindhviðurnar mest um 70 metrar á sekúndu. Rafmagnið hefur farið tvisvar af Þórshöfn síðan fjölskyldan lenti, bæði á Þorláksmessu og jóladag. Fjölskyldan er því nú fyrst að ná að hitta alla vinina og ættingjana sem þau komu til að heimsækja.
Baldur segist oft hafa upplifað vont og erfitt veður á Íslandi en þó aldrei eins hvasst og í Færeyjum. „Munurinn er líka sá að veðrið stendur ekki svona lengi yfir á Íslandi. Ég hef ekki upplifað það áður að þurfa að halda börnunum inni í um tvo sólarhringa. Það var engin glóra í því að fara með þau út, þau hefðu bara fokið til og frá,“ segir Baldur.
Hann segir veðrið nú hafa gengið niður og allt komið í eðlilegt horf. Lögreglunni í Færeyjum hafa borist um 350 tilkynningar um eignatjón vegna veðursins. Hún fær þó aðeins tilkynningar um stærstu tjónin en talsvert fleira er tilkynnt til tryggingafélaganna.
Frétt mbl.is: 350 tilkynningar um eignatjón í Færeyjum