Varnarmálaráðherra Rússlands hefur heitið því að endurreisa kór Rauða hersins eftir að 64 söngvarar og stjórnandi kórsins fórust með herflugvél í Svartahafi um helgina. Hann ætlar meðal annars að bjóða fram sjötíu íbúðir undir nýja kórfélaga.
Kórinn var á leiðinni til Sýrlands þegar flugvélin hrapaði skammt frá borginni Sotsjí. Ætlaði hann að skemmta rússneskum hermönnum þar á áramótafögnuði. Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, segir að hann muni gera sitt til að endurreisa kórinn sem fyrst, halda áheyrnarprufur og velja bestu söngvarana til að halda hefðinni áfram.
Alls eru um tvö hundruð söngvarar, dansarar og hljóðfæraleikarar í kór Rauða hersins. Flestir þeirra eru óbreyttir borgarar og atvinnutónlistarmenn sem vinna með fleiri kórum og listahópum. Kórinn var stofnaður árið 1928 á tímum Sovétríkjanna og var einn af fáum sovéskum hljómsveitum sem kom fram á erlendri grundu í kalda stríðinu.