Ísraelsk stjórnvöld samþykktu að byggð yrði fjögurra hæða blokk fyrir landnema í austurhluta Jerúsalem, nánar tiltekið í palestínska hverfinu Silwan. Þetta er haft eftir talsmanni samtakanna Ir Amim sem fylgjast með framkvæmdum í landtökubyggðum.
Fyrr í dag frestaði skipulags- og húsnæðisnefnd Jerúsalem veitingu leyfa fyrir byggingu hundruð nýrra heimila í landtökubyggðum. Hins vegar samþykkti fyrrgreind nefnd leyfi fyrir byggingu íbúðanna á þessu svæði.
Frétt mbl.is: Fresta veitingu byggingaleyfa í landtökubyggðum
Ísraelsk stjórnvöld samþykktu fyrr í vikunni að reisa þúsundir slíkra heimila í borginni, þvert á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna síðastliðinn föstudag um að Ísraelar hætti þegar í stað að koma upp landtökubyggðum á palestínsku landi.