Ráku 35 Rússa úr landi

Barak Obama, forseti Bandaríkjanna og Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Barak Obama, forseti Bandaríkjanna og Vladimir Putin, forseti Rússlands. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa rekið 35 Rússa úr landi. Þeir eru leyniþjónustumenn og þar af eru fjórir hátt settir í leyniþjónustunni GRU. Þeim hefur verið hótað frekari refsiaðgerðum. Bandaríkjamenn saka þá um að standa á bak við netárásir í forsetakosningunum í nóvember.

„Ég hef fyrirskipað nokkrar refsiaðgerðir vegna mikils áreitis rússneskra stjórnvalda í garð bandarískra embættismanna og netaðgerða sem beindust að bandarísku kosningunum,“ sagði Barack Obama, Bandaríkjaforseti.

Rússunum ásamt fjölskyldum þeirra var gert að yfirgefa landið á innan við 72 klukkustundum. Þeir eru starfsmenn í rússneskum sendiráðum í borgunum Washington og San Francisco, samkvæmt The Wall Steet Journal.

Búist er við að stjórn Obama muni leggja fram frekari sannanir fyrir að Rússar hafi staðið að baki innbroti í tölvupóstaþjóna landsnefndar Demókrataflokksins. Í kjölfar þess var tölvupóstum John Podesta, kosningastjóra Hillary Clinton lekið. Umfjöllun fjölmiðla um forsetaframboð hennar einkenndist mjög af því sem kom fram í póstunum. 

Frá því í kosningabaráttunni hafa Rússar verið sakaðir um netárásir í forsetakosningunum. Nokkr­ar leyniþjón­ustu­stofn­an­ir Banda­ríkj­anna, þar á meðal CIA, hafa lýst því yfir að rúss­nesk stjórn­völd hafi  reynt að tryggja Trump sig­ur í kosn­ing­un­um, meðal ann­ars með því að brjót­ast inn í tölvu­pósta lands­nefnd­ar Demó­krata­flokks­ins og leka tölvu­póst­um Podesta.

Bæði rúss­nesk stjórn­völd og Trump hafa þver­tekið fyr­ir þess­ar ásak­an­ir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka