Þýska lögreglan hefur leyst úr haldi Túnisa sem grunaður var um að vera vitorðsmaður landa síns, sem framdi hryðjuverkið í Berlín 19. desember.
Áður en gerandinn, hinn 24 ára Anis Amri, keyrði vörubíl inn á jólamarkað og myrti þannig tólf manns, sendi hann sjálfsmynd ásamt textaskilaboðum, sem sögðu: „Bróðir minn, allt er gott, samkvæmt guðs vilja. Ég er nú í bíl, biddu fyrir mér bróðir minn, biddu fyrir mér.“
Rannsakendur höfðu talið að móttakandi skilaboðanna væri umræddur Túnisi, fertugur að aldri, og handtóku hann í Berlín í gær.
Talsmaður ríkissaksóknara, sem fer með mál tengd hryðjuverkjum, viðurkenndi svo í dag að maðurinn væri ekki sá sem lögreglan leitaði að.
Frétt mbl.is: Mögulegur vitorðsmaður handtekinn