Þýska lögreglan þungvopnast fyrir nýtt ár

Lögreglumenn standa vörð í þýsku höfuðborginni.
Lögreglumenn standa vörð í þýsku höfuðborginni. AFP

Þýsk yfirvöld vinna að því að efla öryggisgæslu fyrir árlegan nýársfögnuð í miðborg Berlínar á laugardag í kjölfar hryðjuverksins 19. desember. Mun lögreglan vopnast hríðskotabyssum og verður hátíðarsvæðið við Brandenborgarhliðið umkringt steyptum hellum.

„Í ár munum við hafa steypta vegartálma auk brynvagna við inngangana að svæðinu,“ segir talsmaður lögreglunnar í Berlín.

Fjöldi lögreglumanna á svæðinu verður í kringum þúsund, eins og í fyrra, en aðeins hluti þeirra verður vopnaður hríðskotabyssum.

Þjóðverjar höfðu þegar í fyrra eflt öryggisgæslu við nýársfögnuðinn, eftir hryðjuverkin 13. nóvember í París. Nú, eins og þá, mega gestir ekki koma inn með bakpoka eða stóra poka.

Hvers kyns skoteldar og aðrir hugsanlega hættulegir hlutir, á borð við glerflöskur, verða þá einnig bannaðir við hátíðarhöldin, en búist er við að hundruð þúsundir manna muni gera sér ferð að hliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert