Rússar svara í sömu mynt

Sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu. Rússar ætla að vísa 31 starfsmanni …
Sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu. Rússar ætla að vísa 31 starfsmanni þaðan úr landi og fjórum frá ræðisskrifstofunni í Sankti Pétursborg. AFP

Utanríkisráðuneyti Rússlands hefur beðið Vladimír Pútín forseta um að reka 35 bandaríska sendifulltrúa úr landi eftir að bandarísk stjórnvöld vísuðu sama fjölda rússneskra leyniþjónustumanna frá Bandaríkjunum í gær. Sendifulltrúarnir starfa í sendiráðum Bandaríkjanna í Moskvu og Pétursborg.

Barack Obama fráfarandi forseti Bandaríkjanna fyrirskipaði refsiaðgerðirnar vegna þess sem hann kallaði áreiti rússneskra stjórnvalda í garð bandarískra embættismanna og netárása í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs.

Frétt Mbl.is: Ráku 35 Rússa úr landi

Nú segir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að auk þess að vísa bandarísku sendifulltrúunum úr landi vilji ráðuneyti hans banna þeim sem eftir verða að nota orlofsbústað í vesturhluta Moskvu og vöruhús í norðurhluta hennar. Það eru viðbrögð við ákvörðun Obama um að loka húsnæði á vegum Rússa í Maryland og New York.

Lavrov segir að byggingarnar í Bandaríkjunum hafi verið notaðar fyrir frí barna sendifulltrúa Rússa og sagði fáránlegt að halda því fram að þær hafi verið „hreiður njósnara“.

„Við getum auðvitað ekki látið hjá líða að svara þessum brellum. Að svara í sömu mynt er lögmál ríkiserindreksturs og alþjóðlegra samskipta,“ segir Lavrov.

„Andrússneskar dauðateygjur“

Dimitrí Medvedev, forsætisráðherra, harmaði refsiaðgerðir bandarískra stjórnvalda á Twitter. Í forsetatíð hans sem var samtíð fyrsta kjörtímabili Obama lagði Medvedev áherslu á bætt samskipti við Bandaríkin.

„Það er dapurlegt að sjá að ríkisstjórn Obama sem hóf líf sitt á að endurvekja tengslin skuli enda á andrússneskum dauðateygjum. Hvíl í friði,“ tísti Medvedev.

Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa fullyrt að Rússar hafi staðið að baki netárásum og innbroti í tölvupóstþjóna landsnefndar Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna. Tilgangur þeirra hafi verið að tryggja Donald Trump sigur.

Sjálfur sagði Trump í gær að Bandaríkin ættu að hætta að velta sér upp úr málinu. Fram að þessu hefur hann þrætt fyrir að Rússar hafi haft afskipti af kosningunum. Nú segist hann hins vegar ætla að ræða við leyniþjónustuna um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert