Anis Amri sem ók flutningabíl inn í mannfjölda á jólamarkaði í Berlín fyrr í mánuðinum var á leið til Rómar þegar hann var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó. Þetta kemur fram í fréttum ítalskra fjölmiðla í dag.
Í frétt Corriere della Sera kemur fram að Amri hafi í tvígang sést á öryggismyndavélum á lestarstöð í Túrín þar sem hann var að leita að lestum sem voru á leið til Rómar eða Mílanó.
Að lokum hafi Amri, sem var 24 ára gamall, valið héraðslest sem var á leið til Lombardy því svo seint að kvöldi voru engar lestar á leið til höfuðborgarinnar, segir í fréttinni. Þetta sýni að Amri hafi ekki gert neina nákvæma flóttaáætlun áður en hann lét til skarar skríða og drap 12 manns og særði fjölmarga.
Í nokkrum ítölskum fjölmiðlum kemur fram að þegar hann kom til Milanó aðfararnótt 23. desember hafi Amri spurt vegfarenda hvar hann gæti tekið lest eða rútu til Rómar, Napólí eða Suður-Ítalíu.
Í bænum Sesto San Giovanni, þar sem Amri var skotinn til bana í útjaðri Mílanó, er upphafsstaður fjölmargra alþjóðlegra leiða með langferðabílum. Til að mynda Spánar, Marokkó, Albaníu og eins Suður-Ítalíu.
Rómarblaðið Il Messaggero segir að það hafi ekki verið nein tilviljun að Amri stefndi til Rómar því þar þekkti hann marga. Amri kom til Ítalíu árið 2011 frá Túnis eftir að arabíska vorið spratt þar út. Á Ítalíu sat hann á bak við lás og slá í fjögur ár fyrir að hafa kveikt í flóttamannamiðstöð. Þar á hann að hafa öfgavæðst líkt og margir aðrir í yfirfullum evrópskum fangelsum. Hann kom til Þýskalands í júlí 2015 en á þeim tíma ríki algjör ringulreið í innflytjendamálum vegna gríðarlegs straums flóttafólks þangað. Amri skipti ítrekað um nafn og flutti oft næstu misserin en honum var synjað um hæli í Þýskalandi.