Kína dregur úr kolaframleiðslu

Kolaverksmiðja í Kína.
Kolaverksmiðja í Kína. AFP

Kolaframleiðsla í Kína mun dragast saman um 800 milljónir tonna samkvæmt áætlun ríkisstjórnar landsins sem kynnt var í dag. Þrátt fyrir það er talið að kolaframleiðslan aukist í 3,9 milljarða tonna árið 2020 en hún var 3,75 milljarðar tonna í fyrra. Tilgangurinn er að auka öryggi í framleiðslunni auk umhverfissjónarmiða.

Eftirspurn eftir kolum hefur dregist saman í Kína en landið er stærsti kolanotandi heims. Allt að 60% af raforku í Kína er framleidd með kolum. Talið er að Kínverjar muni brenna 4,1 milljarði tonna af kolum árið 2020 borið saman við 3,96 milljarða í fyrra. Eins hefur dregið úr aukningu í orkunotkun. Fyrir nokkrum árum jókst hún um 10% á ári en nú er vöxturinn 3%.

Gríðarleg loftmengun fylgir kolanotkuninni og liggur oft þykkt mengunarský yfir borgum landsins af völdum hennar. Ríkisstjórnin hafði þegar lofað því að draga úr framleiðslu kola um 250 milljónir tonna á þessu ári og að draga úr vægi kola í orkubúskap þjóðarinnar.

Þá stendur til að nútímavæða kolaorkuverk til að draga úr losun mengunarefna um 60% fyrir árið 2020. Kínverjar hyggjast ná jöfnuði í losun sinni á gróðurhúsalofttegundum í kringum árið 2030.

Mikill vöxtur hefur engu að síður átt sér stað í raforkuframleiðslu með kolum í Kína undanfarin ár. Þannig voru tvö ný kolaorkuver reist í hverri viku árið 2015 að jafnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka