Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst sig sammála efasemdum Julians Assange, stofnanda uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks, um að yfirlýsingar bandarískra leyniþjónusta um að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum séu á rökum reistar.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að Assange hafi fullyrt að leki á tölvupóstum á vegum bandaríska Demókrataflokksins hafi ekki verið fyrir tilstuðlan Rússa. Trump segir á samfélagsmiðlinum Twitter að Assange hafi fullyrt að Rússar hafi ekki lekið upplýsingunum í hann en Wikileaks birti tölvupóstana.
Trump hefur ítrekað hafnað niðurstöðum bandarískra leyniþjónustustofnana í málinu. Bæði til að mynda bandaríska leyniþjónustan CIA og alríkislögreglan FBI telja að Rússar hafi staðið fyrir því að hakka póstþjóna Demókrataflokksins og kosningaherferðar Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trumps, til þess að tryggja kjör hans.