Lögreglan í Frakklandi leitaði í dag að rúmlega tvítugri japanskri konu sem saknað hefur verið síðan 4. desember. Óttast er að konan, sem stundaði nám í frönsku í borginni Besancon, sé látin eftir að myndband fannst þar sem fyrrverandi unnusti hennar hótaði henni.
Frétt mbl.is:Aðstoðarkennari eftirlýstur fyrir morð
Fram kemur í frétt AFP að lögreglan telji að maðurinn hafi myrt konuna. Talið er að hann hafi flúið til Chile, heimalands síns, og hefur verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum. Dómsmálaráðuneyti Chile er í samstarfi við frönsk yfirvöld vegna málsins.
Maðurinn, Nicolas Zepeda Contreras, hótaði konunni, Narumi Kurosaki, öllu illu í myndbandinu, sem er frá því í september, ef hún uppfyllti ekki ákveðnar kröfur hans. Segist hann elska Kurosaki en sakar hana um að hafa gert honum ýmislegt.
Leitað hefur verið í dag í skógi í nágrenni borgarinnar Besancon eftir að merki frá farsíma Kurosakis bárust þaðan. Leitarhundar hafa verið notaðir við leitina. Gögn sýna að unnustinn fyrrverandi hafi verið í borginni um það leyti sem Kurusaki hvarf.
Lögreglan telur að gögn málsins bendi til þess að Kurusaki sé að öllum líkindum látin og miðast aðgerðir við það að verið sé að leita að líki hennar.