Segir „barnalegt“ að vanmeta ógnina

Francois Hollande, forseti Frakklands, og Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra landsins.
Francois Hollande, forseti Frakklands, og Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra landsins. /AFP

Netárásum hefur farið ört fjölgandi í Frakklandi síðastliðin þrjú ár og stafar innviðum samfélagsins alvarleg ógn af slíkum árásum að sögn varnarmálaráðherra landsins. Frakkar segjast hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum í 24.000 netárásum á síðasta ári.

Varnarmálaráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, segir fjölda slíkra árása tvöfaldast á hverju ári og að forsetakosningunum, sem fram fara þar í landi á þessu ári, gæti stafað hætta af slíkum árásum. 

Þúsundir árása verið stöðvaðar

Le Drian segir barnalegt að halda því fram að Frakkar séu ónæmir fyrir þeirri tegund „kosningabaráttu á netinu“ sem beitt var í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og Rússum hefur verið kennt um. Hann grandskoðar nú netöryggismál Frakklands og mögulegar aðgerðir í þeim efnum.

Í viðtali við franska dagblaðið Journal du Dimanceh segir Le Drian að Frakkar ættu ekki að „haga sér barnalega“ hvað þetta varðar. Þúsundir utanaðkomandi árása hafi verið stöðvaðar, þar á meðal tilraun til að eiga við drónakerfi Frakka.

Kosningarnar sem fram fara í Frakklandi í apríl og maí eru undir miklu eftirliti eftir óvæntan sigur Donalds Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem í gær sagði þá sem mótfallnir eru góðum samskiptum við Rússland vera „heimskingja og fífl“.

Frétt mbl.is: Fífl sem ekki vilja vingast við Rússland

Forsetaefni franska Íhaldsflokksins, Francois Fillon, hefur sagst vilja bæta sambandið við Rússland og hefur Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, sagst hafa miklar mætur á Fillon. Marine Le Pen, formaður hægriflokksins National Front, hefur einnig lýst yfir áhuga fyrir bættum samskiptum við Rússa. 

Samband landanna tveggja hefur verið stirt eftir að Francois Hollande, Frakklandsforseti, gegndi lykilhlutverki í þeirri ákvörðun að beita viðskiptaþvingunum gegn Rússum vegna innrásar þeirra á Krímskaga.

Í apríl 2015 var franska sjónvarpsstöðin TV5 Monde hætt komin í kjölfar tölvuárásar og mátti litlu muna að hún legðist af. Hópur sem kallar sig Cyber Caliphate, sem tengist samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki, lýsti á sínum tíma yfir ábyrgð á árásinni. Seinna leiddi rannsókn í ljós að það var hópur rússneskra tölvuþrjóta sem stóð að árásinni. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka