Brosti lítillega við dómsuppkvaðningu

Fjöldamorðinginn og rasistinn Dylann Roof, 22 ára, brosti lítillega þegar dauðadómurinn var kveðinn upp yfir honum í gærkvöldi. Bróðir eins fórnarlambsins segir að réttlátt að Roof deyi líkt og fórnarlömb hans.

Roof skaut níu svarta kirkjugesti til bana í messu í miðborg Charleston í Suður-Karólínu í júní 2015. Hann var dæmdur fyrir 33 ákæruliði í síðasta mánuði, þar á meðal hatursglæp sem leiddi til dauða fólks. 

Biblíuhópurinn Mother Emanuel, sem hafði boðið Roof velkominn, var að hefja lokabæn sína þegar Roof dró upp vopn sitt og drap fólkið sem var á aldrinum 26-87 ára. Roof er mikill aðdáandi Ku Klux Klan samtakanna og nasista og telur hvíta kynstofninn öðrum æðri.

Kviðdómurinn, tólf manns, voru sammála í niðurstöðu sinni - Roof verður tekinn af lífi - en síðar í dag mun alríkisdómarinn Richard Gergel, formlega lesa dóminn fyrir Roof. Í gærkvöldi sýndi hann lítil svipbrigði annað en að brosa lítillega þegar honum varð ljóst að kviðdómurinn hafði dæmt hann til dauða. „Mér finnst enn að ég hafi þurft að gera þetta,“ sagði Roof við réttarhöldin þar sem hann flutti sjálfur lokaræðuna þvert á ráðleggingar lögmanna og dómara. Hann ætlar að óska eftir endurupptöku en dómarinn hefur krafið Roof um sérstakar ástæður fyrir þeirri beiðni. 

Ættingjar fórnarlambanna fá að tjá sig í dómssalnum síðar í dag en saksóknari, Jay Richardson hafði við réttarhöldin hvatt kviðdóminn til þess að dæma Roof til dauða. Hann hafi framið kaldrifjað og þaulskipulagt morð. Hann hafi ekki einu sinni fellt eitt einasta tár og ekki sýnt neina eftirsjá. Eina skiptið sem Roof hafi verið sakbitinn var við að þurfa að bjóða foreldrum sínum upp á að fylgjast með þessum tilfinningaþrungnu réttarhöldum. En móðir hans fékk hjartaáfall eftir að hafa hlýtt á vitnisburð þeirra sem lifðu af árásina.

„Hann fann til með þeim. Hann fann vorkenndi sjálfum sér að hann hefði verið sviptur frelsi, möguleikanum á að horfa á kvikmyndir og keyra bíl,“ sagði Richardson við réttarhöldin.

En hann fann til með litlu hvítu börnunum sem þyrftu að sitja uppi með svart fólk í Bandaríkjunum, sagði saksóknarinn meðal annars við réttarhöldin.

„Einhver varð að gera eitthvað því að svart fólk er drepa hvítt fólk alla daga,“sagði Roof við yfirheyrslur lögreglunnar. „Þeir nauðga 100 hvítum manneskjum á hverjum degi,“ bætti hann við.

Á minnisblaði sem fannst í klefa Roofs í ágúst 2015 hafði hann skrifað að hann sæi ekki eftir neinu og að ekki hafi eitt tár fallið vegna þeirra sem hann drap. 

Lögmenn hans reyndu að fá hann úrskurðaðan ósakhæfan en alríkisdómarinn, Gergel, úrskurðaði í tvígang að Roof væri sakhæfur. 

Fjölskylda fjöldamorðingjans sendi yfirlýsingu á bandaríska fjölmiðla í gær þar hún sagðist halda áfram að biðja fyrir fjölskyldum Emanuel-biblíuhringsins og samfélaginu í Charleston í heild. Þau muni glíma við það alla ævi að reyna að skilja hvers vegna Dylann hafi framið þennan viðurstyggilega glæp sem hefur valdið svo mörgum miklum kvölum.

Tim Scott, annar af tveimur öldungadeildarþingmönnum Suður-Karólínu sagði í gær að Roof hafi réttilega verið dæmdur til dauða en dauðarefsingu er sjaldan beitt í alríkisdómum en að hluta til skýrist það af því að yfirleitt eru ofbeldisglæpir teknir fyrir hjá innanríkisdómstólum ekki alríkis. Frá árinu 1976 hafa þrír fangar verið teknir af lífi af hálfu alríkisins.

Dylann Roof hefur einnig verið ákærður fyrir morð í Suður-Karólínu og stefna saksóknarar á að fara fram á dauðarefsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert