Áður en alríkisdómarinn Richard Gergel tilkynnti fjöldamorðingjanum Dylann Roof að hann heðfi verið dæmdur til dauða gaf hann ættingjum og vinum fólksins sem Roof myrti tækifæri til að ræða við hann.
Hinn 22 ára gamli Roof skaut níu svarta kirkjugesti til bana í messu í miðborg Charleston í Suður-Karólínu í júní 2015. Hann var dæmdur fyrir 33 ákæruliði í síðasta mánuði, þar á meðal hatursglæp sem leiddi til dauða fólks.
Biblíuhópurinn Mother Emanuel, sem hafði boðið Roof velkominn, var að hefja lokabæn sína þegar Roof dró upp vopn sitt og drap fólkið sem var á aldrinum 26-87 ára. Roof er mikill aðdáandi Ku Klux Klan-samtakanna og nasista og telur hvíta kynstofninn öðrum æðri.
Roof lokaði augunum í dómsal og forðaðist þar með að horfa framan í ættingja og vini fórnarlambanna. Margir báðu Roof um að opna augun og horfa á þau en hann gerði það ekki.
„Dylann! Dylann! Ég veit að þú heyrir í mér. Ég vildi að þú myndir horfa á mig en ég veit að þú heyrir í mér,“ sagði Jamie Scott en frændi hennar, Tywanza Sanders, var myrtur.
„Hvernig dirfistu að sitja hérna með þinn heimskulega svip og láta eins og þú hafir ekki gert neitt rangt,“ öskraði Ashland Temoney á Roof en frænka hennar var eitt fórnarlambanna.
„Þú ert mesta skræfa sem ég hef séð,“ bætti hún við.