Allar eignir Donald Trump verða settar í sjóð áður en hann tekur embætti en synir hans munu taka við stjórnartaumum Trump Organization. Samsteypunni verður ekki heimilt að stofna til nýrra viðskiptasamninga erlendis og þá verða allir innlendir samningar háðir eftirliti sérstaks siðferðisráðgjafa, sem er ætlað að hafa eftirlit með mögulegum hagsmunaárekstrum.
Þetta var meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, í dag. Þar var forsetinn m.a. spurður um viðskiptahagsmuni sína en hann benti m.a. á að kjósendur hefðu verið vel upplýstir um viðskiptaveldi sitt þegar þeir kusu hann í embætti.
Á blaðamannafundinum kynnti Trump til sögunnar lögmanninn Sheri Dillon en fyrirtæki hennar hefur unnið að því að „byggja strúktúr“ til að aðskilja viðskiptahagsmuni Trump og ákvarðanir hans sem forseta.
Vildi Dillon meina að bandarísk lög sem fjölluðu um hagsmuni embættismanna næðu hvorki til forsetaembættisins né varaforsetaembættisins. Sagði hún að Trump vildi engu að síður sýna og sanna að ákvarðanir hans í embættu væru alfarið teknar í þágu bandarísku þjóðarinnar en ekki eigin hagsmuna.
Sem fyrr segir verða eignir Trump færðar í sjóð sem verður í umsjá sona hans, Donald Jr. og Eric. Dóttir hans Ivanka mun ekki koma að rekstri fjölskyldufyrirtækisins en eiginmaður hennar hefur verið skipaður ráðgjafi Trump.
Trump mun láta af öllum hlutverkum í fyrirtækjum sínum og þá verða allar auðseljanlegar eignir á borð við hlutabréf losaðar. Eignirnar í sjóðnum verða tvenns konar; lausafé og ríkisskuldabréf annars vegar, og fasteignir og fyrirtæki á borð við hótel og golfvelli hins vegar.
Skipaður verður siðferðisráðgjafi sem mun fara yfir alla samninga sem gerðir verða. Þá hefur verið fallið frá öllum samningum sem voru í smíðum, 30 talsins. Engir nýir samningar verða gerðir erlendis.
Að sögn Dillon verður Trump eingöngu heimilt að fá upplýsingar um heildarafkomu Trump Organization og þá mun hann ekki fá neinar upplýsingar um daglegan rekstur nema í fjölmiðlum.
Var sú lending að flytja viðskiptahagsmuni Trump í sjóð sögð eina fýsilega lausnin í stöðunni. Aðrar hugmyndir, á borð við þá að hann seldi reksturinn, börnum sínum eða öðrum, hefðu ekki verið útfæranlegar.
Trump svaraði spurningum fjölmiðlamanna, sem margir hverjir vildu vita meira um meint gögn sem Rússar eru sagðir hafa undir höndum og eru mögulega skaðvænleg Trump. Mike Pence, verðandi varaforseti, og Sean Spicer, verðandi fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, stigu báðir í pontu og fordæmdu fréttaflutning af málinu.
Sjálfur hefur Trump talað um „pólitískar nornaveiðar“ og sagði á blaðamannafundinum að upplýsingunum hefði verið lekið af andstæðingum hans, sem hann kallaði „sjúkt fólk“. Sagði hann um að ræða „falsaðar fréttir“ og fór ófögrum orðum um Buzzfeed, sem birti samantekt um meint samskipti kosningateymis Trump og fulltrúa stjórnvalda í Moskvu, og gögnin sem Rússar eru sagðir hafa undir höndum.
Trump lofaði „faglega“ miðla sem hefðu séð samantektina en setið á sér en setti ofan í við blaðamann CNN á staðnum. Þess ber að geta að CNN birti ekki samantekt Buzzfeed og hefur reyndar fordæmt birtingu hennar en Trump virðist ósáttur við umfjöllun miðilsins þar sem fram kom að öryggisyfirvöld hefðu upplýst hann og Barack Obama um ásakanirnar.
Forsetinn verðandi hóf blaðamannafundinn á því að hreykja sér af því að hafa fengið bandaríska bifreiðaframleiðendur til að hætta við að flytja framleiðslu sína úr landi og sagðist ætla að verða mesti „starfasköpuður“ sem Guð hefði skapað.
Hann fordæmdi öryggisyfirvöld harðlega fyrir meintan gagnaleka í tengslum við umfjöllun síðustu daga en spurður um afstöðu sína til þeirra gaf hann í skyn að ýmislegt myndi breytast þegar hans menn tækju við. Sagði hann m.a. að innan 90 daga frá því hann tæki við embætti yrði kynnt til sögunnar ný skýrsla um tölvuglæpi.
Spurður um meinta tölvuglæpi Rússa og aðkomu þeirra að innbroti í tölvukerfi Demókrataflokksins sagðist hann telja að Rússar hefðu jú, átt aðkomu að máli. Sagði hann demókrata geta sjálfum sér um kennt, þar sem þeir hefðu ekki hugað að netvörnum líkt og Repúblikanaflokkurinn hefði gert.
Þá sagði Trump að ef Pútín líkaði við Donald Trump væri það ekki slæmt. Það væri þvert á móti eitthvað sem mætti hagnýta. Rússar gætu hjálpað til í baráttunni við Ríki íslam, sem væri sköpunarverk fráfarandi stjórnar.
„Trúir því einhver að Hillary yrði harðari við Pútín en ég?“ spurði forsetinn verðandi viðstadda.
Spurður um hin meintu viðkvæmu gögn sem Rússar hefðu mögulega undir höndum og gætu komið honum illa, sagðist Trump afar meðvitaður um öryggismál þegar hann ferðaðist erlendis. Hann sagðist m.a. ávallt ráðleggja öðrum að gera ráð fyrir að hótelherbergi væru alsett myndavélum.
„Trúir þessu einhver?“ spurði hann um fréttaflutning þess efnis að til séu upptökur sem sýna Trump í kynlífsleik þar sem svokallaðar „gullsturtur“ koma við sögu. Uppskar hann mikinn hlátur viðstaddra þegar hann sagðist vera „sýklafóbískur“.
Trump fagnaði því að fá spurningu um Obamacare og sagði að hinni „hörmulegu“ heilbrigðislöggjöf yrði snúið umsvifalaust. Sagði hann freistandi að gera ekki neitt og sjá kerfið springa í andlitið á demókrötum en það væri ekki sanngjarnt gagnvart þjóðinni.
Sagði Trump að í staðinn kæmi ódýrara og betra kerfi en fór ekki út í smáatriði.
Forsetinn svaraði ýmsum spurningum áður en hann kvaddi og ítrekaði m.a. þá fyrirætlun sína að láta stjórnvöld í Mexíkó greiða fyrir landamæravegginn sem hann hyggst reisa. Þá sagði hann að fyrirtækjum sem flyttu framleiðslu sína úr landi yrði refsað með háum innflutningsskatti.
Trump sagði Bandaríkin hafa gert ömurlega viðskiptasamninga og að ríkið tapaði verulega á viðskiptum sínum við lönd á borð við Kína, Japan og Mexíkó.
Hann sagðist aðspurður ekki mæla með úrbótum fyrir fjölmiðla heldur þyrftu að koma til einstaklingar með „siðferðilegan áttvita“. Hann bæði bara um heiðarlega blaðamenn.
Spurður um skipun nýs hæstaréttardómara í stað Antonin Scalia, sem lést í febrúar síðastliðnum, sagðist Trump vera með 20 nöfn á lista. Útnefning hans í embættið yrði tilkynnt innan við tveimur vikum frá því hann tæki við stjórnartaumunum. Sagðist Trump telja að skipan hæstaréttar hefði ráðið nokkru um það að hann náði kjöri.