Fjöldamorðinginn og öfgamaðurinn Anders Behring Breivik, sem myrti 77 manneskjur í Noregi árið 2011, segir að fimm ára einangrun hafi gert hann róttækari.
„Ég er orðinn róttækari. Ég var róttækur í upphafi en undanfarin fimm ár hef ég orðið mun róttækari,“ sagði hinn 37 ára Breivik í vitnisburði sínum hjá norskum áfrýjunardómstóli.
Frétt mbl.is: Breivik fyrir dóm á ný
Norska ríkið áfrýjaði dómi lægri dómstóls þar sem ríkið var sakfellt fyrir að hafa meðhöndlað Breikvik „ómannúðlega“, aðallega vegna einangrunar hans frá öðrum föngum.
Ríkið var talið hafa brotið gegn 3. grein mannréttindasáttmála Evrópu og var dæmt til að greiða 330 þúsund norskar krónur í málskostnað til handa Breivik.
„Ég hef orðið fyrir miklum áhrifum vegna einangrunarinnar og það að verða róttækari eru líklega alvarlegustu áhrifin vegna hennar,“ sagði Breivik.
Réttarhöldin eiga að standa yfir í sex daga og á þeim að ljúka 18. janúar. Búist er við úrskurði í febrúar.