Segir að NATO sé úrelt stofnun

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, segir að Atlantshafsbandalagið, NATO, sé úrelt stofnun.

„NATO á við vandamál að stríða. Það er úrelt stofnun vegna þess að hún var búin til fyrir mörgum, mörgum árum,“ sagði Trump í viðtali við þýska blaðið Bild og hið enska The Times.

„Við eigum að vernda þessi lönd en mörg af þeim greiða ekki það sem þau eiga að greiða,“ bætti hann við. „Það er mjög ósanngjarnt gagnvart Bandaríkjunum.  

Frétt mbl.is: Kjör Trump ekki endalok NATO

Frá fundi í höfuðstöðvum NATO í Brussel.
Frá fundi í höfuðstöðvum NATO í Brussel. AFP

Merkel gerði „hörmuleg mistök“

Trump sagði í sama viðtali að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefði gert „hörmuleg mistök“ með því að hleypa óskráðum flóttamönnum inn í landið.

„Hún gerði ein hörmuleg mistök og það var þegar hún tók við öllum þessum ólöglegu, öllu þessu fólki hvaðan sem það kom,“ sagði Trump en bætti við að hann bæri mikla virðingu fyrir Merkel.

Mörg hundruð þúsund flóttamenn komu til Þýskalands árið 2015 vegna stefnu Merkel um að opna dyrnar fyrir flóttamönnum frá hinu stríðshrjáða Sýrlandi.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Fleiri þjóðir munu yfirgefa ESB 

Í viðtalinu sagði Trump einnig að aðrar þjóðir eigi eftir að yfirgefa Evrópusambandið, rétt eins og Bretar gerðu. Hann sagði Brexit vera „frábæran hlut“ og er fylgjandi því að viðskiptasamningur við Breta verði gerður með hraði.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert