Segir markmiðið að „þvinga“ Ísrael

Netanyahu hefur hafnað fundarboði Francois Hollande.
Netanyahu hefur hafnað fundarboði Francois Hollande. AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir ráðstefnuna sem fram fer í París í dag „gagnslausa“. Markmiðið með ráðstefnunni er að endurvekja friðarviðræður Ísraelsmanna og Palestínumanna.

Ummælin lét Netanyahu falla við upphaf ríkisstjórnarfundar í Jerúsalem.

„[Ráðstefnan] var skipulögð af Frökkum og Palestínumönnum með það að markmiði að þvinga skilmála upp á Ísrael sem eru ósamræmanlegir þörfum okkar sem þjóðar,“ sagði forsætisráðherrann.

Ríkisstjórn Netanyahu hefur sett sig harðlega upp á móti ráðstefnunni og segir beinar samræður við Palestínumenn einu leiðina til að binda enda á hina langvarandi deilu.

Palestínumenn hafa hins vegar fagnað aðkomu annarra ríkja að deilunni og bent á að áralangar samningaviðræður hafi ekki bundið enda á hernám Ísraela á Vesturbakkanum.

Hvorki Ísraelar né Palestínumenn eiga fulltrúa á ráðstefnunni en Mahmud Abbas, forseti Palestínu, mun eiga fund með Francois Hollande Frakklandsforseta á næstu vikum til að fara yfir helstu atriði hennar.

Netanyahu hafnaði fundarboði Frakklandsforseta.

Það var utanríkisráðherrann Jean-Marc Ayrault sem setti ráðstefnuna en viðstaddir eru utanríkisráðherrar og fulltrúar 70 ríkja og alþjóðlegra stofnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka