Trump þarf að gæta tungu sinnar

John Brennan, yfirmaður CIA.
John Brennan, yfirmaður CIA. AFP

John Brennan, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, segir Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, þurfa að gæta tungu sinnar í þágu þjóðaröryggis.

Ásakanir hafa verið uppi um að Rússar hafi haft afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum og hafa þær varpað skugga á undirbúning fyrir vígslu Trumps í embætti forseta næstkomandi föstudag.

 „Ég held að hann átti sig ekki almennilega á því hvers Rússar eru megnugir,“ sagði Brennan í viðtali við Fox News Sunday.

Trump hefur lofað Vladimir Pútín, forseta Rússlands, og á blaðamannafundi fyrir skömmu sagði hann að ef Pútín líki við hann yrði það mikilvægt til að lagfæra stirt samband Bandaríkjanna og Rússlands.

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti. AFP

„Ég tel að Trump þurfi að vera mjög agaður þegar kemur að opinberum ummælum hans,“ sagði Brennan.

„Eftir nokkra daga verður hann valdamesta manneskja heimsins er hann verður yfirmaður Bandaríkjastjórnar og hann þarf að átta sig á því að orð hans hafa áhrif,“ sagði hann.

„Þetta snýst um meira en hann, þetta snýst um Bandaríkin og þjóðaröryggi [...] hann fær tækifæri til að gera eitthvað í þágu þjóðaröryggis í stað þess að tala og tísta.“

Brennan bætti við: „Hvatvísi verndar ekki þjóðaröryggi og þess vegna, þegar hann talar og bregst við, verður hann að skilja að afleiðingarnar og áhrifin á Bandaríkin geta orðið djúpstæð.“

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, vísaði því á bug í dag að samstarfsmenn Trumps og stjórnvöld í Rússlandi hafi verið í sambandi meðan á kapphlaupinu um forsetaembætti Bandaríkjanna stóð á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka