Stjórnvöld í Rússlandi horfa til Íslands þegar kemur að vali á hlutlausum fundarstað fyrir fyrsta fund Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, og Donalds Trump eftir að sá síðarnefndi tekur við embætti forseta Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í umfjöllun Financial Times en samkvæmt miðlinum vilja stjórnvöld í Rússlandi óðfluga bæta samskiptin við Bandaríkin en þau hafa versnað mjög vegna Úkraínu og stríðsins í Sýrlandi.
Í frétt FT er haft eftir embættismanni á skrifstofu forseta Rússlands að fyrsti fundurinn eigi að vera haldinn í hlutlausu landi. „Það verður örugglega ekki í London og ekki í Þýskalandi þar sem ríkin eru bæði fjandsamleg í garð Rússlands. Frakkland kemur ekki til greina þar sem það þætti óviðeigandi vegna kosningabaráttunnar þar. Hvað um Ísland?“ segir embættismaðurinn í viðtali við FT.
Starfsmenn Trumps hafa afneitað frétt Sunday Times um að hafa greint breskum embættismönnum frá því að stefnt sé að fundi með forseta Rússlands í Reykjavík nokkrum vikum eftir innsetningarathöfnina en tveir rússneskir embættismenn eru að undirbúa þá áætlun. Upplýsingafulltrúi Pútíns hefur ekki svarað fyrirspurnum FT um málið en rússneska fréttastofan RIA hefur eftir honum að ekkert hafi verið rætt um mögulegan fund Pútíns og Trump.
Mike Pence, verðandi varaforseti Bandaríkjanna, sagði í gær að bætt samskipti við Rússa í baráttunni gegn hryðjuverkum væru framarlega á verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar.
Áskrifendur FT geta lesið fréttina í heild hér.