Forseti Frakklands François Hollande hefur svarað gagnrýni Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, fullum hálsi varðandi skoðun þess fyrrnefnda á flóttamannastefnu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.
Hollande segir að Evrópa þurfi ekki á utanaðkomandi ráðum að halda varðandi hvað hún þurfi að gera.
Trump hefur sakað Merkel um að hafa gert hörmuleg mistök við að taka á móti svo mörgum hælisleitendum. Merkel svaraði honum því til að það væri Evrópusambandsins að taka ákvarðanir um hvað það gerði og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, setur fram spurningarmerki varðandi ummæli Trumps.
„Ég hélt í hreinskilni sagt að það væri óviðeigandi af kjörnum forseta Bandaríkjanna að blanda sér inn í stjórnmál annarra ríkja með svo beinum hætti,“ segir Kerry í viðtali við CNN.
Kerry bætir við að Trump verði að sjálfur að svara fyrir það og á föstudaginn beri hann ábyrgð á samskiptum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Vísar Kerry þar til þess að Trump verður settur í embætti á föstudag.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og fleiri evrópskir ráðamenn brugðust í gær hart við þeim ummælum Donalds Trump, væntanlegs forseta Bandaríkjanna, í blaðaviðtali að Atlantshafsbandalagið (NATO) væri úrelt og að sú stefna þýskra stjórnvalda að hleypa skilríkjalausum flóttamönnum inn í landið hefði verið mistök.
„Örlög okkar Evrópubúa eru í okkar eigin höndum,“ sagði Merkel þegar hún var spurð um gagnrýni Trumps. Sagðist hún myndu vinna að því innan Evrópusambandsins að styrkja efnahag Evrópuríkja og berjast gegn hryðjuverkastarfsemi.
Í viðtalinu, sem breska blaðið The Times og þýska blaðið Bild birtu í gær, sagði Trump að hann hefði fyrir löngu haldið því fram að NATO ætti við vandamál að etja.
„Í fyrsta lagi er það úrelt bandalag enda stofnað fyrir mörgum, mörgum árum. Í öðru lagi, að aðildarríkin greiða ekki til þess það sem þau eiga að greiða.“
Trump sagði á kosningafundum á síðasta ári að hann myndi hugsa sig tvisvar um áður en hann legði aðildarríki NATO lið ef viðkomandi ríki hefði ekki greitt sanngjarnan hluta af kostnaðinum við að reka Atlantshafsbandalagið.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagðist í gær vera agndofa yfir gagnrýni Trumps. Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, tók í sama streng og sagði að bestu viðbrögðin við ummælum Trumps væru að Evrópubúar stæðu saman. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði gegnum talsmann að hann hefði fulla trú á því að Bandaríkin myndu standa við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópu eftir að Trump tekur við forsetaembættinu 20. janúar.
Í viðtalinu neitaði Trump að svara því hvort hann treysti Merkel betur en Vladimír Pútín, forseta Rússlands. „Ég treysti þeim báðum í upphafi, en sjáum til hvað það endist lengi. Það er ekki víst að það endist lengi,“ sagði Trump.
Hann sagðist einnig ætla að sjá til hvort ekki væri hægt að ná einhverjum góðum samningum við Rússa og gaf óljóst til kynna að reynt yrði að semja um fækkun kjarnorkuvopna og afnám viðskiptaþvingana sem Rússar hafa verið beittir eftir að þeir innlimuðu Krímskaga.
Þessi ummæli Trumps hafa vakið ugg í aðildarríkjum NATO í austurhluta Evrópu, sem mörg hafa áhyggjur af auknum umsvifum Rússa á svæðinu.
Í viðtalinu hótaði Trump einnig þýskum bílaframleiðendum háum innflutningstollum ef þeir ætluðu að flytja bíla, framleidda í Mexíkó, til Bandaríkjanna. Hlutabréf í þýsku bílaverksmiðjunum BMW, Volkswagen og Daimler lækkuðu eftir að viðtalið birtist. Talsmaður BMW sagði í gær að fyrirtækið ætlaði að halda fast við áform um að opna verksmiðju í Mexíkó árið 2019.