Miskunn fráfarandi forseta

Chelsea Manning.
Chelsea Manning. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti mildaði í gær dóm uppljóstrarans Chelsea Manning, sem var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2013 fyrir að afhenda Wikileaks trúnaðargögn í eigu bandaríska ríkisins. Í einu af sínum síðustu embættisverkum náðaði Obama 64 og stytti dóma 209, þeirra á meðal hinnar 29 ára Manning, sem var dæmd fyrir njósnir en verður að líkindum látin laus í maí næstkomandi.

Manning var dæmd í ágúst 2013 eftir að hafa viðurkennt að hafa lekið 700.000 viðkvæmum hernaðarskjölum og diplómatískum gögnum. Í þeim var m.a. að finna upplýsingar um stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan, og samskipti starfsmanna bandarísku sendiráðanna, sem innihéldu m.a. berort mat á erlendum þjóðarleiðtogum og viðburðum.

Það var herdómstóll sem dæmdi í máli Manning og síðan hefur henni verið haldið í fangelsi sem eingöngu hýsir karlfanga. Þar hefur hún nokkrum sinnum sætt einangrunarvistun og hefur tvisvar gert tilraun til að svipta sig lífi. Aðgerðasinnar og stuðningsmenn Manning hafa sagt dóm hennar yfirdrifinn og m.a. vísað til sálfræðilegrar viðkvæmni hennar.

Chelsea, hét Bradley Manning, þegar hún var handtekin. Stuðningsmenn hennar …
Chelsea, hét Bradley Manning, þegar hún var handtekin. Stuðningsmenn hennar segja hana hafa sýnt ótrúlegt hugrekki með því að hefja leiðréttingarferlið á bakvið lás og slá. Vistin hefur hins vegar reynst henni erfið, enda er henni haldið í fangelsi þar sem hún er eina konan. AFP

„Þessi ákvörðun gæti bókstaflega bjargað lífi Chelsea,“ sagði Chase Strangio hjá American Civil Liberties Union eftir að tilkynnt var um ákvörðun forsetans, sem þykir kom á óvart, ekki síst í ljósi mikillar umræðu um netglæpi í nýafstöðnum forsetakosningum. Hefur Obama gripið til refsiaðgerða gegn Rússum vegna innbrots þeirra í tölvupóstkerfi Demókrataflokksins en Wikileaks birti hluta þeirra gagna sem var stolið.

„Sigur“

Hvíta húsið hafði í aðdraganda ákvörðunar Obama neitað að tjá sig um mögulega refsistyttingu eða náðun. En talsmaðurinn Josh Earnest freistaði þess að gera greinarmun á Manning, sem fór í gegnum dómskerfið og játaði sekt sína, og Edward Snowden. Snowden, sem starfaði sem verktaki fyrir NSA, flúði til Hong Kong og síðar Rússlands árið 2013, eftir að hafa afhent blaðamönnum trúnaðargögn og -upplýsingar um eftirlitsgetu bandaríska ríkisins og bandamanna.

Snowden var ekki á lista Obama en tísti þökkum vegna ákvörðunarinnar varðandi Manning. Hann hefur dvalið í Rússlandi frá því að fjölmiðlar um allan heim birtu fréttir byggðar á gögnunum sem hann afhenti blaðamönnum. Dvalarleyfið hans rennur út á þessu ári en rússnesk stjórnvöld tilkynntu í dag að hann mætti dvelja tvö ár í viðbót.

Wikileaks lýsti yfir „sigri“ og þakkaði þeim sem börðust fyrir málstað Manning.

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, sem hefur dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum frá 2012 til að forðast framsal frá Svíþjóð til Bandaríkjanna, hét því í tísti í síðustu viku að samþykkja framsal ef Obama sýndi Manning miskunn. Assange hefur síðan fagnað ákvörðun forsetans en ekki gefið upp hvort hann hyggst standa við orð sín. Einn lögmanna hans, Melinda Taylor, sagði hins vegar við Associated Press að hann myndi ekki fara á bak orða sinna.

Þá birtist eftirfarandi tíst á Twitter-aðgangi Wikileaks:

Þess ber að geta að talsmenn Hvíta hússins hafa neitað því að nokkur tengsl séu á milli fyrirheits Assange um að gefa sig fram og ákvörðunar Obama um að milda dóm Manning.

Fleiri hafa tekið fregnunum fagnandi.


Bakslag

Repúblikanar eru margir hverjir yfir sig hneykslaðir á ákvörðun Obama um miskunn til handa Manning. „Þetta er einfaldlega hneyksli,“ sagði Paul Ryan, forseti neðri deildar bandaríska þingsins. „Svik Chelsea Manning stofnuðu bandarískum lífum í hættu og uppljóstruðu um sum af viðkvæmustu leyndarmálum þjóðarinnar. Obama skilur eftir sig hættulegt fordæmi; að þeir sem setja þjóðaröryggi okkar í hættu verða ekki látnir sæta ábyrgð fyrir glæpi sína.“

Öldungadeildarþingmaðurinn Tom Cotton, sem er talinn mögulegt leiðtogaefni flokksins, var reiður og sagði ekki rétt að gera svikara að píslarvotti. „Ég skil ekki af hverju forsetinn hefur sérstaka samúð með einhverjum sem stofnaði lífum hermanna okkar, diplómata, leyniþjónustufulltrúa og bandamanna í hættu.“

Repúblikanar hafa risið upp á afturfæturna vegna meintra netinnbrota Rússa, sem mögulega hjálpuðu forsetaefni þeirra að sigra Hvíta húsið.

Meðal annarra sem nutu miskunnar forsetans að þessu sinni voru Oscar Lopez-Rivera, þjóðernissinni frá Puerto Rico, sem hefur setið í fangelsi í meira en þrjá áratugi fyrir hryðjuverk. Þá náðaði Obama James Cartwright, fyrrum fjögurrastjörnu hershöfðingja, sem laug að alríkislögreglunni um samræður sínar við blaðamenn um kjarnorkuáætlun Íran.

Menn velta nú vöngum yfir því hvort Obama náðar Bowe …
Menn velta nú vöngum yfir því hvort Obama náðar Bowe Bergdahl á morgun. Bergdahl hefur verið sakaður um að hafa yfirgefið hersveit sína en hann var í kjölfarið handsamaður af talíbönum. Margir segja leitina að Bergdahl hafa sett aðra hermenn í hættu, og jafnvel valdið dauðsföllum, en aðrir segja að vistin hjá talíbönum hljóti að teljast nægjanleg refsing.

Þess er að vænta að Obama tilkynni um fleiri náðanir á fimmtudag, að því er fram kemur hjá AFP. Margir munu horfa til þess hvort Bowe Bergdahl verður á þeim lista en hann var fangaður af talíbönum eftir að hafa yfirgefið herdeild sína og var í haldi þeirra í fimm ár. Hann er nú undir eftirliti hernaðaryfirvalda vestanhafs og á leið fyrir herrétt. Fjallað var um mál Bergdahl í hinu gríðarvinsæla podcasti Serial.

Önnur nöfn sem ekki voru nefnd í gær voru m.a. David Petraeus og Hillary Clinton. Hershöfðinginn Petraeus játaði að hafa deilt trúnaðargögnum án heimildar en gárungar hafa velt upp þeim möguleika að Obama kunni að náða Clinton fyrirfram, til að koma í veg fyrir að repúblikanar, með Donald Trump í broddi fylkingar, freisti þess að sækja hana til saka fyrir meðhöndlun hennar á tölvupósti þegar hún var dómsmálaráðherra.

Trump tekur embætti á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert