Rússnesk stjórnvöld hafa ákveðið að framlengja dvalarleyfi uppljóstrarans Edward Snowden um tvö ár til viðbótar í landinu, segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Rússlands.
Yfirlýsingin frá Rússlandi kemur strax eftir að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mildaði í gær dóminn yfir uppljóstraranum Chelsea Manning. Manning, sem var hermaður í Bandaríkjaher, var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2013 fyrir að leka gögnum til WikiLeaks. Hún verður látin laus í maí á þessu ári en hún hefur setið í fangelsi frá árinu 2010.
Frétt mbl.is: Obama mildar dóminn yfir Manning
Snowden var greinandi hjá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni (NSA) er hann ljóstraði upp um ýmis leynigögn bandarískra stofnana. Þar í landi á hann yfir höfði sér ákærur sem gætu orðið til þess að hann þarf að afplána allt að 30 ára fangelsisdóm.
Snowden var ekki á svokölluðum stuttlista Obama sem náði yfir þá einstaklinga sem gætu fengið mildari refsingu.
Þegar ljóst var að dómur Manning hafi verið mildaður sagði Snowden á Twitter: „Ég segi það í hreinskilni og af öllu mínu hjarta: Takk Obama.“
Ekki náðist í lögfræðing Snowden, Anatoly Kucherena, til að staðfesta ákvörðun rússneskra stjórnvalda.