Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquín „El Chapo“ Guzmán kom til Bandaríkjanna í nótt eftir að hafa verið framseldur af yfirvöldum í heimalandinu. Í Bandaríkjunum er honum gert að svara til saka í nokkrum málum.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur staðfest að flugvél sem flutti Guzman frá Mexíkó hafi lent á MacArthur-flugvellinum í Islip á Long Island. Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla verður hann leiddur fyrir alríkisdóm í Brooklyn síðar í dag.
Guzman, sem gengur undir viðurnefninu „El Chapo“ eða „Sá stutti“, stýrði Sinaloa-eiturlyfjahringnum en glæpahópurinn er einn sá valdamesti í heiminum. Viðskipti Sinaloa nema mörgum milljörðum Bandaríkjadala og ná um allan heim líkt og margar alþjóðlegar fyrirtækjasamsteypur.
Framsalið þykir mikill sigur fyrir bandarísk yfirvöld en óvíst er hvort það breyti nokkru um áhrif Sinaloa og framtíð hans enda eiturlyfjahringurinn af mörgum talinn of stór og valdamikill til þess að falla.
Guzman hefur ítrekað komist í fréttirnar fyrir flótta úr fangelsi en í tvígang tókst honum að flýja og í það síðara á ævintýralegan hátt líkt og hægt er að lesa hér að neðan. En yfirvöld höfðu hendur í hári þess stutta (hann er 168 cm að hæð) og er fylgst með honum allan sólarhringinn.
Hluti af frétt mbl.is: Fyrst þvottakarfa nú sturta
Sinaloa-eiturlyfjahringurinn dregur nafn sitt af héraðinu þar sem hann var stofnaður. Sinaloa annast stóran hluta alls heróíninnflutnings til Bandaríkjanna en glæpahópurinn er einnig stórtækur í kókaínsölu sem og sölu á öðrum ólöglegum efnum. Guzmán er einnig þekktur fyrir að hafa skipulagt drjúgan hluta þeirra morða sem framin hafa verið í Mexíkó undanfarin ár í tengslum við baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Guzmán var dæmdur í 20 ára fangelsi eftir að hafa verið framseldur frá Gvatemala árið 1993 fyrir morð og eiturlyfjasölu. Honum tókst hins vegar að flýja úr fangelsinu árið 2001 í þvottakörfu eftir að hafa greitt fangavörðum háar fjárhæðir fyrir að aðstoða við flóttann.
Einn af áhrifamestu mönnum heims og um leið ríkustu
Allt frá árinu 2009 hefur tímaritið Forbes sett Guzmán á lista yfir valdamesta fólkið í heiminum. Hann var árið 2011 í tíunda sæti yfir ríkustu Mexíkóana en þá voru eignir hans metar á um einn milljarð Bandaríkjadala, rúmlega 120 milljarða króna. Tímaritið hefur gengið enn lengra og jafnvel sagt hann helsta eiturlyfjabarón sögunnar. Telja ýmsir að hann sé ekki síður áhrifamikill en Pablo Escobar og standi fyllilega undir heitinu guðfaðir eiturlyfjaheimsins.
Aldrei komið til Chicago en samt óvinur almennings númer eitt
Bent er á það að Chicago Crime Commission nefnir Guzmán sem óvin almennings númer eitt. Það „sæmdar“heiti fær hann fyrir áhrif sín á glæpaheim borgarinnar þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að Guzmán hafi nokkurn tíma komið til Chicago. Sá síðasti sem bar þennan titil var Al Capone.
Í þrettán ár gekk Guzmán laus þrátt fyrir að milljónir Bandaríkjadala hafi verið settar til höfuðs honum af bandarískum og mexíkóskum yfirvöldum. Hinn 22. febrúar í fyrra tókst hins vegar að handtaka hann á leynistað í bænum Mazatlán í Sinaloa-ríki. Handtakan fór friðsamlega fram og ekki var skotið af byssu þegar sérsveit hersins réðst til atlögu í skjóli nætur. Nokkru áður hafði næstum því tekist að taka hann höndum en Guzmán tókst að flýja heimili fyrrverandi eiginkonu áður en hermenn og lögreglu komu þangað.
Guzmán er nú leitað um alla Mexíkó og hefur jafnvel flugvelli skammt frá fangelsinu verið lokað. Enn er allt á huldu um flóttaleiðina en fastlega má gera ráð fyrir að hann hafi greitt einhverjum fyrir að aðstoða sig við að flýja á brott.
Heimilisofbeldi nánast daglegt brauð
Heimildum ber ekki saman um aldur Guzmán. Einhverjar heimildir segja að hann hafi fæðst 25. desember 1954 á meðan aðrar segja fæðingardag hans vera 4. apríl 1957. Hann er úr fátækri fjölskyldu sem hefur búið í La Tuna-þorpinu kynslóðum saman.
Fátt eitt er vitað um uppvöxt þess stutta. Hann seldi appelsínur sem barn og hætti snemma í skóla til þess að vinna með pabba sínum. Heimilisofbeldi var nánast daglegt brauð og fékk Guzmán oft að kenna á hnefa föður síns.
Atvinnutækifæri voru fá á þessum slóðum og Guzmán var ungur að árum er hann tók til við algenga iðju, ræktun ópíumvalmúa. Faðir hans annaðist söluna en mestallur gróðinn fór í áfengi og villtar meyjar og oft lítið eftir þegar faðir hans sneri heim úr söluferðum.
Þegar Guzmán var fimmtán ára gamall sleit hann samstarfinu við föðurinn og hóf að rækta sitt eigið marijúana ásamt frændum sínum. Allt frá fyrstu tekjum af framleiðslunni lét hann hluta gróðans renna til fjölskyldunnar sem bjó við sára fátækt. Um tvítugt hleypti hann heimdraganum og gekk til liðs við glæpagengi. Í fyrstu vann hann fyrir eiturlyfjabaróninn Héctor Palma þar sem hann sá um að flytja eiturlyf og halda utan um sendingar frá ákveðnum stöðum.
Skaut menn í höfuðið ef sendingum seinkaði
En Guzmán var metnaðargjarn og þrýsti mjög á yfirboðara sína um fleiri og arðbærari tækifæri. Hann var vel liðinn af yfirmönnum sínum, ekki síst fyrir það hvernig hann tók á hlutunum. Til að mynda ef sendingarnar bárust ekki á réttum tíma þá myrti Guzmán einfaldlega sjálfur smyglarann með því að skjóta viðkomandi í höfuðið. Menn lærðu fljótt að það borgaði sig ekki að reita hann til reiði og skipti þar engu hvort keppinautarnir byðu betra verð fyrir eiturlyfin.
Eitt leiddi af öðru og vegur Guzmáns jókst jafnt og þétt innan vébanda eiturlyfjaheims Mexíkó. Það var síðan snemma á tíunda áratugnum sem illdeilur milli eiturlyfjabaróna í Mexíkó náðu hámarki og í stríði sem stóð í nokkra mánuði var mörgum mannslífum fórnað. Þegar erkibiskup kaþólsku kirkjunnar, Juan Jesús Posadas Ocampo, var skotinn fyrir misgáning til bana varð allt vitlaust meðal almennings og stjórnmálamanna. Ríkisstjórnin lagði háar fjárhæðir til höfuðs háttsettra glæpamanna og myndir voru birtar af þeim í fjölmiðlum. Allt í einu varð Guzmán þekktur meðal almennra borgara í Mexíkó sem einn hættulegasti glæpamaður landsins.
Guzmán sá sitt óvænna og ákvað að hverfa af sjónarsviðinu. Slíkt er yfirleitt frekar auðvelt ef nægir peningar eru fyrir hendi og í byrjun júní fékk hann nýtt nafn: Jorge Ramos Pérez. Ætlunin var að fara til Gvatemala ásamt unnustu sinni og setjast að í El Salvador. En mexíkósk yfirvöld, í samstarfi við Gvatemala, fylgdust með ferðalaginu. Herforingi, sem Guzmán hafði mútað til þess að aðstoða sig við að komast yfir landamærin, lék tveimur skjöldum og var uppljóstrari stjórnvalda. Hann lét vita af ferðalagi hópsins og 9. júní 1993 var eiturlyfjabaróninn handtekinn af her Gvatimala á hóteli skammt frá landamærum Mexíkó.
Þrátt fyrir að vera dæmdur í fangelsi stýrði hann eiturlyfjahring sínum áfram og eftir flóttann 2001 hélt hann starfseminni áfram og hafa bandarísk yfirvöld ítrekað farið fram á framsal hans. Ákærur og dómar hafa streymt inn en óvíst er hvort yfirvöldum tekst að hafa hendur í hári þessa ókrýnda konungs skuggahliða Mexíkó.
Fangelsimálayfirvöld segja að klukkan 8:52 að staðartíma (12. júlí 2015) hafi síðast sést til fangans þar sem hann birtist á öryggismyndavélum í sturtu en á sama stað geta fangar þvegið fatnað sinn. Þegar Guzman sást ekki aftur fóru fangaverðir að huga að honum og fundu klefa hans tóman.
Eins og í kvikmynd
Yfirvöld upplýstu í kjölfarið að Guzmán hafi flúið í gegnum löng göng sem eiga upptök sín undir sturtunni í fangaklefa hans. Eftir að hann hvarf sjónum kom í ljós að hola, tíu metra djúp, undir sturtunni. Hafði stiga verið komið fyrir í holunni. Göngin eru 1,5 km að lengd með loftræstingu og ljósakerfi en um er að ræða byggingu í öryggisfangelsinu sem verið er að gera upp.
Vélhjól fannst í göngunum og er talið að það hafi verið notað til þess að flytja verkfæri inn í göngin og jarðveg úr göngunum. Göngin eru 1,7 metrar á hæð og um 80 cm víð. Þegar hefur verið ákveðið að yfirheyra átján fangaverði hjá saksóknara vegna málsins.
Að sögn fangelsisstjórans hafði dagurinn þangað til Guzmán hvarf verið með eðlilegum hætti og um áttaleytið hafi fanginn fengið daglegan lyfjaskammt sinn.
Altiplano-fangelsið, sem á að vera eitt rammgerðasta fangelsi landsins, hýsir flesta af hættulegustu eiturlyfjabarónum landsins, sem og morðingja og mannræningja.
Tæplega hálfu ári síðar, eða í janúar í fyrra, var Guzman handtekinn að nýju og hefur síðan þá verið vistaður í rammgerðustu fangelsum Mexíkó þangað til hann var framseldur til Bandaríkjanna í gær.