Eyðilegging vígasveita Ríkis íslams á ómetanlegum menningarverðmætum í sýrlensku borginni Palmyra er stríðsglæpir, segir framkvæmdastjóri UNESCO, Irina Bokov.
Nýjar fréttir hafa borist af eyðileggingu vígasveitanna á menningarverðmætum í borginni fornu. Meðal annar hafi þær jafnað ómetanlega rómverska minnisvarða við jörðu og hringleikahús borgarinnar frá tímum Rómverja.
Áður höfðu vígasamtökin jafnað ómetanlegar minjar við jörðu, svo sem Baal Shamin-hofið og Bel-hofið í Palmyra.
Palmyra var vin í miðju einskismannslandi og hefur verið kölluð „Perla eyðimerkurinnar“. Nafn hennar merkir Pálmaborg og hún er kennd við döðlupálma sem eru enn algengir á þessum slóðum.
Palmyra er getið á töflum frá 19. öld fyrir Krist. Borgin varð snemma mikilvægur áningarstaður úlfalda- og vagnalesta á leiðinni milli Miðjarðarhafs og Persaflóa og einnig á Silkileiðinni til Kína og Indlands. Blómaskeið borgarinnar hófst á fyrstu öld eftir Krist, þegar hún var hluti af Rómaveldi, og stóð í fjórar aldir. Henni tók síðan að hnigna og hún eyðilagðist að lokum í jarðskjálfta árið 1089.
Palmyra var einn af vinsælustu ferðamannastöðum Sýrlands áður en stríðið í landinu hófst árið 2011. Á ári hverju komu þangað um 150.000 erlendir ferðamenn til að skoða fornminjarnar, m.a. fallegar styttur, meira en þúsund súlur og greftrunarsvæði með um 700 grafhýsi.
Irina Bokova segir tjónið ómetanlegt fyrir sýrlensku þjóðina og ekkert annað en stríðsglæpi.
„Þetta nýja högg gegn menningarverðmætum... sýnir að menningarhreinsanir eru leiddar af öfgafullum ofbeldismönnum sem ætla sér að eyða bæði mannslífum og sögulegum fornminjum í þeim tilgangi að svipta sýrlensku þjóðina fortíð sinni og framtíð,“ segir Bokova.
Ríki íslams endurheimti Palmyra, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, 11. desember og átti eyðileggingin sem nú er greint frá sér stað í byrjun janúar.