„Ég er ekki ofbeldisfull manneskja, ég hvet ekki til ofbeldis og það er mikilvægt að fólk heyri og skilji ræðu mína í heild í staðinn fyrir bara eina setningu,“ segir bandaríska tónlistarkonan Madonna á samfélagsmiðlinum Instagram vegna ummæla sem hún lét falla í ræðu sem hún flutti á fjölmennum mótmælum í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, á laugardaginn þar sem áherslum Donalds Trump, forseta landsins, var mótmælt.
„Já, ég er reið. Já, mér er misboðið. Já, ég hef hugsað mjög mikið um að sprengja Hvíta húsið í loft upp. En ég veit að það myndi engu breyta,“ sagði Madonna meðal annars í ræðu sinni, samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Stuðningsmenn Trumps hafa brugðist ókvæða við ummælum Madonnu og meðal annars varpað því fram hvernig því hefði verið tekið ef það sama hefði verið sagt þegar Barack Obama var forseti.
„Einn söngvaranna sagðist vilja sprengja Hvíta húsið. Getið þið ímyndað ykkur einhvern segja þetta um Obama forseta?“ sagði Reince Priebus, starfsmannastjóri Hvíta hússins, í samtali við sjónvarpsstöðina Fox News. Madonna segir hins vegar að orð sín hafi verið slitin úr samhengi. Hún hafi verið að reyna að koma því á framfæri að tvær leiðir væru til þess að bregðast við kosningu Trumps. Annars vegar með von og hins vegar reiði.