Við munum reisa múr segir Trump

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er nú byrjaður að koma stefnu …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er nú byrjaður að koma stefnu sinni í innflytjendamálum í verk. AFP

Donald Trump, sem tók við embætti Bandaríkjaforseta sl. föstudag, mun í dag undirrita opinbera tilskipan um að ríkisfjármunir verði nýttir í að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Þetta hefur fréttastofa CNN eftir starfsmanni Hvíta hússins.

Búist er við að fleiri tilskipanir er snúi að innflytjendamálum fylgi í kjölfarið, m.a. er snýr að stefnu í málefnum flóttamanna og vegabréfaáritunum. CNN segir Trump munu tilkynna um ákvarðanir sínar í dag er hann fer í heimsókn í ráðuneyti innanríkisöryggismála.  

Trump sjálfur ýjar að tilkynningunni í Twitter-skilaboðum sem hann sendi frá sér í gærkvöldi: „Stór dagur varðandi ÞJÓÐARÖRYGGI á morgun. Meðal margra annarra hluta munum við reisa múr!“ sagði í pósti Trump.

CNN hefur eftir heimildamanni sem þekkir til ráðagerða forsetans að hann ætli að greina frá tveimur opinberum tilskipunum í heimsókn sinni í ráðuneytið.

Annars vegar verður ráðuneytinu gert að hefja undirbúning að byggingu á múr á landamærum Mexíkó, sem og að ráðast í aðgerðir til að gera við landamæragirðinguna sem þegar er á landamærum ríkjanna. Þá eigi að fjölga starfsfólki í landamæragæslu um 5.000 til að draga úr straumi hælisleitenda frá Mið-Ameríku.

Hinni tilskipuninni verður beint gegn þeim borgum þar sem yfirvöld hafa neitað að afhenda alríkisyfirvöldum upplýsingar um óskráða innflytjendur, en heimildamaður CNN segir Trump ætla að þurrka út slík verndarsvæði.

Þá er forsetinn sagður ætla að greina frá vinnu varðandi vegabréfaáritanir og flóttamenn fyrir vikulok. Segir CNN vinnu nú í gangi við gerð tilskipunar sem muni setja alla flóttamannaaðstoð Bandaríkjanna á ís í fjóra mánuði, á meðan að leita eigi þeirra lausna sem hafi sem minnsta áhættu í för með sér fyrir bandarískt þjóðaröryggi. Þá yrði með öllu hætt að taka á móti þeim sýrlensku flóttamönnum sem flýja stríðið heima fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert