Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur undirritað tilskipun um það sem hann kallaði „mikla enduruppbyggingu“ bandaríska hersins.
Hann lofaði nýjum herflugvélum og herskipum, auk fleiri búnaðar fyrir herinn.
„Enginn mun efast um hernaðarstyrk okkar en enginn mun heldur efast um ósk okkar um að friður ríki. Við viljum frið,“ sagði Trump við hátíðlega athöfn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, er hann vígði James Mattis í embætti varnarmálaráðherra.
Trump undirritaði einnig tilskipun um vegabréfsáritanir sem hann sagði að ætti að „halda íslömskum hryðjuverkamönnum frá Bandaríkjunum“.
Trump hefur haft í nógu að snúast í dag því hann hitti einnig Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í Hvíta húsinu.