Donald Trump Bandaríkjaforseti þrýsti á forstjóra National Park Service (NPS), sem m.a. hefur umsjón með garðlendum við þinghúsið, að framvísa fleiri ljósmyndum af mannfjöldanum sem var viðstaddur innsetningu Trumps í forsetaembættið síðastliðinn föstudag.
Washington Post segir forsetann hafa verið þess fullvissan að slíkar myndir myndu sanna að fjölmiðlar hafi logið til um fjölda þeirra sem fylgdust með innsetningarathöfninni. Loftmyndir hafa sýnt að fjöldi þeirra sem fylgdust með athöfn Trump voru allverulega færri en þegar Barack Obama tók við embætti 2009.
Washington Post segir Trump hafa hringt í Michael Reynolds, sem er staðgengill forstjóra NPS, á laugardagsmorgun og krafist þess að fá að sjá fleiri myndir. Taldi forsetinn að myndirnar myndu sýna að fjöldi þeirra sem fylgdust með innsetningarathöfninni hefði verið yfir meðallagi að því er blaðið hefur eftir heimildamönnum sínum.
„Ég get staðfest að símtalið átti sér stað [...] en ég ræði ekki innihald þess,“ sagði Tom Crosson, talsmaður NPS, í tölvpósti til fréttavefjar Guardian.
Washington Post segir Trump einnig hafa lýst yfir reiði vegna þess að ein ríkisstofnun endurdeildi Twitter-skilaboðum sem sýndu hlið við hlið myndir af fjöldanum sem var viðstaddur innsetningu Trump og Obama.
Blaðið segir að fjöldi áhorfenda við innsetningarathöfnina sé Trump mikill þyrnir í augum, enda líti forsetinn stórt á sig og afrek sín. Það sé dæmi um hve illa þetta leggist í hann að hann skuli hafa helgað fyrsta morgun sinn í nýja starfinu því að fylgja málinu eftir og taka ónægju sína út á starfandi forstjóra NPS.
Sam Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins, kvartaði síðar þennan sama dag yfir fréttaflutningi fjölmiðla af fjölda áhorfenda og sagði tilraunir fjölmiðla til að „draga úr áhuga á innsetningarathöfninni vera skammarlegar og rangar.“