„Allt í tómu tjóni“

Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

„Sjáið þið hvað er í gangi alls staðar í Evrópu og alls staðar í heiminum, allt í tómu tjóni!“ Þetta sagði Donald Trump þegar hann tísti um umdeilda tilskipun sína sem meinar flótta­fólki og hæl­is­leit­end­um að koma til lands­ins. Einnig munu rík­is­borgarar frá sjö ríkj­um, þar sem múslim­ar eru í meiri­hluta, ekki fá að ferðast til Banda­ríkj­anna.

Bannið nær hins vegar ekki til þeirra sem eru með græna kortið í Bandaríkjunum. Þetta sagði Reince Priebus, yfirmaður Hvíta hússins. Hann vildi leiðrétta þann misskilning sem hefur orðið á því hverjum væri hleypt inn í landið eftir fyrrgreinda forsetatilskipun sem Trump undirritaði á föstudag.    

Priebus benti á að allir þeir sem myndu ferðast talsvert milli Bandaríkjanna og landanna sjö sem tilskipunin nær yfir mættu eiga von á því að bakgrunnur þeirra yrði skoðaður enn frekar. 

Löndin eru Írak, Sýrland, Súdan, Íran, Sómalía, Líbía og Jemen.

Þetta olli því hins vegar að margir sem höfðu fengið gilda vegbréfsáritun og þar með leyfi til að koma til Bandaríkjanna voru stöðvaðir á flugvöllum og þeim haldið þar klukkustundum saman. Talsverður glundroði ríkti vegna tilskipunarinnar.  

Priebus sagði að um 109 einstaklingar hefðu verið stöðvaðir á flugvöllum eftir að tilskipunin tók gildi. 

Uppfært kl. 22.05:

Trump hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann tekur fram að ekki sé um múslimabann að ræða.

„Bandaríkin eru stolt innflytjendaþjóð og við munum halda áfram að sýna samúð með þeim sem flýja kúgun en við gerum það á sama tíma og við verndum okkar eigin borgara og landamærin. Bandaríkin hafa alltaf verið land hinna frjálsu og heimili hinna hugrökku,“ sagði hann í yfirlýsingu sinni.

„Til að hlutirnir séu á hreinu þá er þetta ekki múslimabann eins og fjölmiðlar hafa ranglega greint frá. Þetta snýst ekki um trúarbrögð. Þetta snýst um hryðjuverk og að halda landinu öruggu.“

Hann bætti við að tilskipun hans hefði engin áhrif á yfir 40 múslimaríki í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert