Dómari frestar brottvísunum

Bandarískur dómari hefur frestað brottvísun flóttafólks og annarra með vegabréfsáritun sem vísa átti úr landi samkvæmt nýrri forsetatilskipun sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, undirritaði á föstudag.

Samtökin American Civil Liberties Union (ACLU), sem berjast fyrir borgaralegum réttindum, höfðuðu mál vegna ákvörðunar forsetans í gær. 

Úrskurður dómarans hefur þau áhrif að þeir sem hafa lent í vandræðum eða verið stöðvaðir vegna tilskipunarinnar verður ekki vísað úr landi að sögn talsmanna ACLU. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Samtökin telja að hátt í annað hundrað einstaklingar hafi verið stöðvaðir á flugvöllum í landinu eða þá í miðju flugi. 

Þúsundir komu saman í gær á flugvöllum landsins til að mótmæla tilskipun Trumps, en hann vildi með þessu stemma stigu við komu flóttafólks og hælisleitenda til Bandaríkjanna. 

Forsetatilskipunin hefur sett aðgerðir bandarískra stjórnvalda í flóttamannamálum í uppnám, en í henni felst enn fremur ferðabann gagnvart ríkisborgurum frá Íran, Írak, Líbýu, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Jemen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert