Donald Trump Bandaríkjaforseti hafnar ásökunum um að ferðabann sem hann setti á hafi valdið töfum á flugvöllum í landinu. Hann segir mótmælendum um að kenna og bilun í tölvukerfi Delta-flugfélagsins.
Samkvæmt tilskipun sem Trump gaf út á föstudag er fólki frá sjö löndum tímabundið bannað að ferðast til Bandaríkjanna. Þúsundir mótmæltu banninu víðsvegar um heim um helgina, m.a. við flugvelli í Bandaríkjunum.
„Mikil vandræði á flugvöllum voru vegna bilunar í tölvukerfi Delta, mótmælenda og tára Schumers þingmanns,“ skrifaði Trump á Twitter og vísaði til ummæla demókratans Chucks Schumer sem hét því að berjast gegn ferðabanni Trumps.
Trump dró úr þeim vandamálum sem sögð eru hafa skapast vegna bannsins en talið er að 109 manns hafi verið handteknir við komuna til Bandaríkjanna um helgina. Hann vitnaði til orða innanríkisráðherrans John Kelly sem sagði að „allt gengi vel“ og að vandamálin væru fá. „GERUM BANDARÍKIN FRÁBÆR AFTUR“ skrifaði svo forsetinn.
„Það er ekkert indælt við það að leita að hryðjuverkamönnum áður en þeir geta komið til landsins okkar,“ skrifaði Trump i annarri færslu á Twitter. „Þetta var stór hluti af kosningabaráttu minni. Að kanna heiminn!“
Hvíta húsið dró í gær úr áhrifum tilskipunarinnar og sagði að hún ætti ekki við þá sem eru með landvistarleyfi í Banaríkjunum.
Fjórir alríkisdómarar hafa frestað brottvísun fólks sem stöðvað var á flugvöllum um helgina. Svo virðist sem tilskipunin hafi ekkert verið undirbúin, t.d. var ekkert samráð haft við landamæraeftirlitið og aðra starfsmenn á flugvöllum sem hafa þurft að framfylgja henni.
Trump útskýrði þetta með því að segja að ef hann hefði sagt frá ákvörðuninni fyrirfram hefði „vonda fólkið“ flýtt sér til Bandaríkjanna. „Það eru margir slæmir gaurar þarna úti!“