Hryðjuverkamaðurinn einn að verki

Kanadískur stjórnmálafræðinemi, sem er þekktur fyrir að aðhyllast hugmyndafræði þjóðernishyggju, hefur verið ákærður fyrir að hafa framið sex morð í mosku í Québec í fyrrakvöld. Í fyrstu var talið að árásarmennirnir hefðu verið tveir að verki en í gærkvöldi greindi lögreglan frá því að árásarmaðurinn hafi aðeins verið einn en sá sem einnig var handtekinn eftir hryðjuverkaárásina á sunnudagskvöldið sé vitni í málinu.

Frétt mbl.is: Ákærður fyrir fimm morð

Árásin er ein sú alvarlegasta sem gerð hefur verið á múslima í vestrænu ríki undanfarin ár. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fordæmdi árásina sem gerð var áttunda tímanum á sunnudagskvöldið þegar tugir voru við kvöldbænir í moskunni. Átta særðust í árásinni og eru fimm þeirra mjög alvarlega særðir á gjörgæslu.

Árásarmaðurinn, Alexandre Bissonnette, gaf sig sjálfur fram við yfirvöld en hann er ákærður fyrir sex morð og að hafa reynt að myrða fimm til viðbótar. Talsmaður lögreglunnar segir að unnið sé að rannsókn málsins og húsleit stóð yfir þegar tilkynnt var um ákæruna í gærkvöldi. 

Bissonnette er, samkvæmt fréttum kanadískra fjölmiðla, þjóðernissinni sem er mikill andstæðingur femínisma. Hann er hrifinn af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og líkaði við síðu forsetans á Facebook skömmu áður en hann framdi hryðjuverkið. Hann hefur einnig lýst yfir aðdáun sinni á frönsku stjórnmálakonunni Marine Le Pen en hún er formaður þjóðernisflokksins Front National.

Bæði lögregla og vitni hafa talað um að tveir grímuklæddir menn hafi skotið á gesti í moskunni á sunnudagskvöldið en í gærkvöldi sagði lögregla að hinn maðurinn hafi aðeins verið yfirheyrður sem vitni í málinu. Í fyrstu hafi verið talið að árásarmennirnir hafi verið tveir en þegar leið á rannsóknina hafi orðið ljóst að aðeins einn árásarmaður var að verki. 

Um fimmtíu manns voru í moskunni þegar árásin var gerð. Þeir sem létust eru allir með tvöfalt ríkisfang. Auk þess að vera með kanadískt ríkisfang er einn frá Marokkó, tveir frá Alsír, einn frá Túnis og tveir frá Gíneu. Margir innflytjendur frá Norður-Afríku eru búsettir í Québec. 

Bissonnette er nemandi við Laval-háskólann. Hann gaf sig sjálfviljugur fram við lögreglu eftir að hafa hringt í neyðarlínuna um það bil klukkustund eftir árásina og tilkynnt hvar hann væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert