Sænskur þingmaður ákærður

Kent Ekeroth.
Kent Ekeroth. Wikipedia/Frankie Fouganthin

Þingmaður Svíþjóðardemókrata hefur verið ákærður fyrir líkamsárás fyrir utan næturklúbb í Stokkhólmi, að sögn ríkissaksóknara. 

Í tilkynningu frá embætti ríkissaksóknara kemur fram að 24. nóvember hafi þingmaður, sem stóð í biðröð fyrir utan næturklúbb, tekið þátt í slagsmálum og sé ákærður fyrir að hafa barið mann fyrir utan staðinn.

Sænski miðillinn Expressen birtir í nóvember myndskeið úr öryggismyndavélum sem sýnir þingmann þjóðernisflokksins, Kent Ekeroth, ráðast á fórnarlambið.  

Ekeroth á að hafa verið fokreiður eftir að hafa verið synjað um inngöngu á næturklúbbinn sem er mjög vinsæll meðal fræga fólksins í Stokkhólmi. Hann segir að maðurinn hafi hæðst að honum þegar hann gekk fram hjá honum. 

Ekeroth, sem er 35 ára, viðurkennir að hafa slegið manninn en að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Aðeins hafi verið um létt högg að ræða. Aftur á móti segir fórnarlambið að þingmaðurinn hafi kýlt sig í andlitið. Um minniháttar líkamsárás er að ræða, að sögn saksóknara og væntanlega fær þingmaðurinn aðeins sekt, ekki fangelsisdóm, fyrir brotið.

Frétt Expressen

Ekeroth hefur ítrekað komist í fréttir fjölmiðla síðan hann hóf afskipti af stjórnmálum. Hann var nýverið rekinn úr þingmannahópi Svíþjóðardemókrata og eins rekinn úr starfi sem alþjóðafulltrúi flokksins.

Árið 2010 var birt myndskeið af Ekeroth þar sem hann tók upp á myndskeið tvo flokksfélaga sína sem æptu rasistaáróður að tveimur mönnum og kölluðu konu, sem reyndi að hafa afskipti af málinu, hóru. Á sama myndskeiði mátti sjá Ekeroth og félaga hans, Erik Almqvist, 31 árs, taka upp járnstangir eftir að hafa lent í illdeilum við drukkinn mann fyrir utan skyndibitastað í Stokkhólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert