Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquín „El Chapo“ Guzman hefur lagt fram kvörtun fyrir bandarískum dómstólum þar sem hann telur þær aðstæður sem hann býr við í bandarísku fangelsi óviðunandi. Guzmán var framseldur til Bandaríkjanna 20. janúar af yfirvöldum í heimalandi sínu.
Hann er í haldi í fangelsi í New York sem tryggir hámarks öryggi. Samkvæmt lögmönnum hans hefur eiginkona hans ekki fengið að heimsækja hann í fangelsið og hefur honum að mestu verið haldið í einangrunarvist.
Frétt mbl.is - Guzman framseldur til Bandaríkjanna
„Við skiljum vel öryggisráðstafanirnar en teljum að nú sé gengið of langt,“ segir Michelle Gelernt, lögmaður Guzman, í viðtali við BBC. Eiginkona Guzman, hin 27 ára gamla Emma Coronel, sá eiginmann sinn, í fyrsta skipti síðan hann var framseldur, fyrir dómi í vikunni.
Dómarinn Brian Cogan benti á sögu Guzman en hann hefur ítrekað komist í fréttirnar fyrir flótta úr fangelsi, fyrst faldi hann sig í þvottakörfu og síðan hvarf hann eftir sturtu og sagði að það væri fangelsisins að ákveða hvaða öryggisráðstafanir þyrfti að gera.
Guzman, sem gengur undir viðurnefninu „El Chapo“ eða „Sá stutti“, stýrði Sinaloa-eiturlyfjahringnum en glæpahópurinn er einn sá valdamesti í heiminum. Viðskipti Sinaloa nema mörgum milljörðum Bandaríkjadala og ná um allan heim líkt og margar alþjóðlegar fyrirtækjasamsteypur.
Guzman er ákærður fyrir að hafa flutt inn mörg tonn af kókaíni, heróíni, maríjúana og metamfetamíni til Bandaríkjanna. Þá er eiturlyfjahringurinn með Guzman í fararbroddi einnig ákærður fyrir að hafa framið þúsundir morða, mannrána og fyrir að hafa mútað embættismönnum.